143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:19]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir spurningarnar. Já, það er rétt að þetta er einmitt meðaltekjufólk sem um ræðir með hálfa milljón á mánuði, meðaltekjur BHM eru einhvers staðar þar um bil, og ef bæði hjón væru framhaldsskólakennarar með pínulitla yfirvinnu gætu þau verið í þessum flokki og teldust ekki hátekjufólk í mínum huga.

Það vantaði hins vegar líka frá hv. þingmanni seinni helminginn af þessari fullyrðingu minni. Ég tók ekki afstöðu til þess hvort þau væru hátekju- eða lágtekjufólk. Það sem ég var að meina og sagði einfaldlega var að ég teldi ólíklegt að þetta fólk ætti í greiðsluvanda, ætti í vanda með skuldir sínar, vegna þess að bæði hefur launavísitala skriðið vel upp á við fyrir þetta fólk og einnig hafa afborganir lána sem hlutfall af ráðstöfunartekjum staðið nokkuð í stað hjá því að öllu eðlilegu, eins og ég tók fram, þ.e. ef vel hefur gengið í lífi fólksins og ekkert annað komið upp á auðvitað.

Í þessu liggur munurinn. Kjarni málsins er þessi greiðsluvandi sem ég er að reyna að draga fram og setja í samhengi við skuldavandann. Það er það sem skiptir máli, þeir sem ég tel ekki þurfa á þessu að halda eru þeir sem ráða við afborganir skulda sinna, þeir sem borga bara af þeim og gengur ágætlega í því. Það er vissulega tiltekinn afmarkaður hópur sem keypti sitt fyrsta húsnæði á bilinu 2005–2007, þar um bil, sem er um þessar mundir með neikvætt eigið fé eins og það er kallað, sem mér finnst alltaf skringilegt að ræða í forsendum heimilisbókhalds, en allt í lagi, og það er þar sem þessar aðgerðir munu koma að einhverju gagni en það eru bara svo margir aðrir sem fá líka sem mér svíður. Þess vegna spyr ég einmitt og það er kjarni máls míns: Má ekki miða þetta aðeins betur?

Ég gæti komið inn á séreignarsparnaðinn á eftir en ég ræddi hann viljandi ekki vegna þess að ég tel mikilvægt að við ræðum þessi tvö mál aðskilin, við ræðum hvort frumvarpið fyrir sig á sínum eigin forsendum. Þess vegna kom (Forseti hringir.) séreignarumræðan ekki inn í dæmið.