143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:00]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að hryggja hv. þm. Þorstein Sæmundsson með því að hann hefur ekki hlustað nægilega vel á ræðuna mína. Öfugt við það sem hann taldi sig heyra, að ég hefði talað niður 110%-leiðina, sakaði ég núverandi stjórnarþingmenn um að hafa gert það en tók fram að þeir hefðu loksins í dag snúist í ummælum sínum. Í kosningabaráttunni töluðu þeir þá leið niður en í umræðunum hér í dag hafa þeir, a.m.k. margir hverjir, mært hana. Það er fínt.

Þingmaðurinn spyr hvað sé rangt við að bæta skaða hjá þeim sem hafi sannarlega orðið fyrir honum, (Gripið fram í: Notaði ekki orðið skaði.) hvort sem hann notaði skaða eða forsendubrest. Ég náði því ekki nákvæmlega en látum það liggja á milli hluta. Að mínu viti er það ekki hlutverk löggjafarsamkundunnar að færa fjármuni til fólks sem hefur sannarlega enga þörf fyrir þá. Ég sé ekki alveg tilganginn í því. Ég sé ekki af hverju við ættum ekki frekar að nýta takmarkaða fjármuni ríkisins til að hjálpa þeim sem eru raunverulega hjálparþurfi. Ég held að það sé mergurinn málsins.

Á sama hátt mætti spyrja: Af hverju er verðtryggingin ekki felld niður fyrst hún er svona voðalega vond? (Gripið fram í.) Af hverju á ekki alveg eins að gera það? (Gripið fram í: Það er nefnd.) Já, já, það er nefnd í því máli eins og svo mörgum öðrum.

Nei, það er hlutverk okkar (Forseti hringir.) hér að tryggja að fjármunum (Forseti hringir.) ríkisins sé vel varið.