143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:19]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég verð að viðurkenna að ég deili tilhlökkun þingmanns þegar kemur að því að mega ýta á hnappinn og sækja um. Hins vegar er engin leið við þá umsókn að geta reiknað hvað fellur manni í skaut. Það kemur eitthvað síðar, eða var það skilningur þingmanns að það yrði mögulegt að sjá það akkúrat 15. maí? Ég held ekki.

Ég tek fram í tilefni ræðunnar að það frumvarp sem er til umræðu hér hjálpar sem slíkt ekki 80% heimila. Með séreignarfrumvarpinu um sparnaðinn erum við byrjuð að tala um 80% heimila.

Þetta frumvarp kemur til með að gagnast 69 þús. heimilum sem eru eitthvað innan við helmingur. Það er rétt að hafa það alveg í huga. Ég held að það sé mikilvægt, eins og ég talaði um í ræðu minni, að tala um þessi tvö frumvörp aðgreint. Það borgar sig ekki að grauta þeim saman.

Vandinn er að samhliða því að lægstu tekjuhóparnir fá sannarlega í þessu frumvarpi einhvers konar afskriftir af sínum skuldum, það er rétt, munu jafnframt þeir sem mest hafa líka fá afskriftir, nánast til jafns. Það er kjarninn í okkar gagnrýni og því sem hefur komið fram í umræðunni í gær og í dag. Rúmlega 15% þeirra sem hafa 12 milljónir eða meira í árstekjur fá niðurfellingu, afskriftir af skuldum sínum. Þar stendur hnífurinn í kúnni.

Þetta snýr að þessu fyrirbæri sem heitir misskipting. Misskipting er raunveruleg í íslensku samfélagi. Hv. þingmaður tók ágætisdæmi í ræðu um störf þingsins af innflutningsskýrslu frá móðuharðindunum þar sem sýnt var fram á að hér hefði verið allt í blússandi velsæld á tímum móðuharðindanna. Það er rétt, hjá sumum var það. Hjá öðrum var það ekki og ég bendi á ævisögu Jóns Steingrímssonar því til staðfestingar. Þegar þetta tvennt er borið saman sést kjarni og eðli misskiptingarinnar og það er við misskiptingunni sem við þurfum að bregðast. Ég hvet framsóknarmenn til að hugsa um hana og finna leiðir í gegnum (Forseti hringir.) frumvarpið til að bregðast við henni.