143. löggjafarþing — 92. fundur,  9. apr. 2014.

ríkisendurskoðandi og ríkisendurskoðun.

488. mál
[00:39]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram sem hefur verið algjörlega efnisleg. Þar hefur verið hreyft við álitamálum sem að sjálfsögðu er ástæða til að við veltum fyrir okkur. Í fyrsta lagi vil ég segja að ég tel að það hafi á margan hátt verið kostur að þetta mál var undirbúið þannig að það hófst á einu kjörtímabili og lýkur vonandi á næsta kjörtímabili. Það held ég að geri það til dæmis að verkum að við fáum skarpari sjónarhorn á málið. Leiða má líkum að því að þetta leiði til þess að farið sé með krítískari hætti yfir málið í heild sinni, frumvarpið og undirbúning þess, með því að breiðari pólitísk sýn sé á málið sem helgast af því að verið er að skoða það á tveimur kjörtímabilum.

Í öðru lagi er það líka fagnaðarefni að tekist hefur mikil samstaða um málið í undirbúningi þess í forsætisnefnd, en það er ástæða þess að málið kemur þetta seint fram á þessu þingi. Það er von okkar í forsætisnefnd að í ljósi þess að það hefur verið þetta lengi í undirbúningi, og það hefur verið skoðað með breiðum pólitískum hætti, að það ætti að gera það að verkum að mögulega væri unnt að ljúka því á þessu vori og ef ekki þá einfaldlega á næsta hausti. Ég geri mér nú engu að síður vonir um að hægt verði að ljúka því á þessu kjörtímabili. Það kemur bara á daginn.

Þessi spurning sem 11. þm. Reykv. n., hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, nefndi hér sem er auðvitað spurningin um það hvort þessi áskilnaður eigi að vera um að ríkisendurskoðandi skuli vera með endurskoðunarpróf og endurskoðunarréttindi. Þetta er rétt, þetta er álitamál. Í undirbúningi málsins var á fyrri stigum gengið út frá því að þessi áskilnaður væri ekki uppi og meðal annars vísað til þess að til að mynda á Norðurlöndunum væri þessi áskilnaður ekki til staðar. Það var hins vegar niðurstaða okkar í núverandi forsætisnefnd, og við vorum öll sammála um það, að til þess væru haldbær rök að gera þennan áskilnað. Þetta er rakið í fyrsta lagi hér lauslega í greinargerð með málinu, með 2. gr., þar sem segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Að baki þeirri kröfu býr sú röksemd að ríkisendurskoðandi, sem ber meðal annars ábyrgð á endurskoðun ríkisreiknings og ársreikninga stofnana ríkisins, skuli hafa þá þekkingu á reikningsskilum og gerð ársreikninga sem nauðsynleg er til þess að geta staðfest réttmæti þeirra og trúverðugleika með áritun sinni.“

Þetta tel ég raunar að sé grundvallaratriði að eðlilegt sé að ríkisendurskoðandi sé til þess bær að geta undirritað þá ársreikninga sem hann er í raun að endurskoða. Þegar við lesum og skoðun síðan starfssvið ríkisendurskoðanda er það alveg rétt sem hv. þingmaður segir, hún hefur farið vaxandi, ef við skoðum þetta yfir eitthvert tímabil, þessi áhersla sérstaklega á stjórnsýsluendurskoðun og jafnvel mál sem ríkisendurskoðun tekur upp að eigin frumkvæði. Engu að síður er það þannig að burðarásinn í starfsemi ríkisendurskoðanda er endurskoðun með hefðbundnum hætti. Það er liður líka og grundvöllur að margvíslegri stjórnsýsluendurskoðun sem á sér stað á vegum ríkisendurskoðunar að fara í gegnum ársreikninga, ríkisreikninga, ársreikninga ríkisaðila, endurskoðun ársreikninga sjóða og ríkisfyrirtækja, endurskoðun og ársreikninga jafnvel alþjóðastofnana sem Ísland kann að vera aðili að o.s.frv. Við töldum einfaldlega að það væri órökrétt. Í ljósi þess að þessi þáttur væri svo snar í verkefnum Ríkisendurskoðunar væri óeðlilegt annað en að gera þá kröfu að ríkisendurskoðandinn, yfirmaður stofnunarinnar, væri í færum til þess, væri til þess bær, að geta undirritað ársreikninga.

Þetta er auðvitað matsatriði sem er sjálfsagt að menn velti fyrir sér og ekkert óeðlilegt við að það kunni að vera á því skiptar skoðanir eins og kom fram við undirbúning málsins. En við lokaundirbúning þess í forsætisnefnd á þessu ári og því síðasta var það eindregin niðurstaða okkar allra sem þar sátu að rökrétt væri að gera þá kröfu að ríkisendurskoðandi hefði endurskoðunarréttindi, ríkisendurskoðandi gæti sem sagt endurskoðað og áritað reikninga.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem fram hefur farið. Nú gengur málið til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem ég veit að mun fara sínum faglegu höndum um málið.