143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég hnaut um frétt á ruv.is um ferðaþjónustuna á Íslandi þar sem segir að svarta hagkerfið í ferðaþjónustunni sé að stækka. Eins og við vitum er ferðamennskan orðin einn stærsti atvinnuvegur á Íslandi sem er mjög ánægjuleg þróun. Þannig kemur fram að frá árinu 2008 hefur fjölgun ferðamanna orðið um 60% en á sama tímabili hafa heildarskatttekjur af ferðaþjónustunni ekki hækkað nema um 18%.

Ekki hefur nein breyting orðið á skattkerfinu á þessum tíma þannig að þetta bendir til þess að þarna sé enn þá meira um svarta atvinnustarfsemi en maður hafði haldið áður. Hafði maður þó grun um að um eitthvað gæti verið að ræða. Það er mjög illt ef þessi stóri atvinnuvegur, framtíðaratvinnuvegur okkar, ætlar að byggjast á einhverju slíku.

Það hefur líka komið fram að bílaleigum hefur fjölgað mjög mikið. Ég hef heimildir fyrir því að töluverður slatti af þessum bílaleigum sem eru nýjar hafi ekki símanúmer og ekki starfsmenn sem bendir til þess að fyrirtæki í ýmsum atvinnugreinum kaupi sér bíla á þeim kjörum sem eiga við um bílaleigubíla, leigi starfsmönnum sínum á kostnaðarverði og selji síðan bílana aftur að nokkrum mánuðum liðnum. Ég held að þetta sé brýning til hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem fara með þessi mál um að taka þetta mjög föstum tökum, fara gaumgæfilega yfir það hvernig skattinnheimtu af ferðaþjónustunni er háttað og hvort ekki sé hægt að bæta þar úr.