143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

almannatryggingar og staða öryrkja.

[15:40]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir að vilja ræða þetta efni. Ég verð hins vegar að fá að leiðrétta hv. þingmann. Þetta málefni hefur verið töluvert rætt í þinginu og meðal annars hafa fulltrúar úr þingflokki Pírata lagt fram fyrirspurnir hér um málið. Af þeim tíu skriflegu fyrirspurnum sem ég hef fengið um málefni hafa sjö fjallað um málefni almannatrygginga og lífeyrisþega.

Ég held að mikill áhugi sé í þinginu á þeim málaflokki. Ég vil sérstaklega hrósa þeim varaþingmönnum sem hafa komið inn sem eru sjálfir öryrkjar eða með fötlun því að þeir hafa staðið sig mjög vel í því að taka þetta mál upp. Þeir hafa komið hingað og svo sannarlega haldið þessum ráðherra við efnið þegar kemur að málefnum lífeyrisþega.

Það er rétt að ég tel að samstaða sé á þinginu um að vilja gera vel við velferðarkerfið, vilja standa vörð um það. Þar sem við erum að ræða það sem hv. þingmaður spyr um, hvað ætlunin sé að gera í málaflokknum á næstunni, vil ég gjarnan rifja upp hvað það er sem þessi ríkisstjórn er þegar búin að gera.

Mjög fljótlega eftir að ríkisstjórnin tók við völdum fór hún í það að draga til baka þær skerðingar sem tóku gildi í júlí 2009. Frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega var hækkað við útreikning tekjutryggingar. Það er í samræmi við stefnu stjórnvalda um að hvetja til aukinnar atvinnuþátttöku hjá þeim sem þiggja greiðslur frá almannatryggingum.

Það var líka tekin ákvörðun um að framlengja frítekjumark örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna út árið 2014. Það er gert í ljósi þess að við erum að bíða eftir niðurstöðu nefndar sem hv. þm. Pétur H. Blöndal leiðir varðandi endurskoðun á bótaflokkum almannatryggingakerfisins. Þar er hugað að því að taka upp starfsgetumat í staðinn fyrir örorkumat.

Það var líka ákveðið að láta lífeyrissjóðstekjur hætta að hafa áhrif á grunnlífeyri elli- og örorkulífeyrisþega og í byrjun árs 2014 voru áhrif tekna á tekjutryggingu elli- og örorkulífeyrisþega lækkuð úr 45% í 38,5%. Framlög í þennan málaflokk bara á fyrsta starfsári þessarar ríkisstjórnar hafa hækkað um rúmlega 11% sem svo sannarlega endurspeglar áherslur ríkisstjórnarinnar á að bæta kjör lífeyrisþega.

Ég er hins vegar sammála þingmanninum um að þarf að gera betur. Við höfum verið að fara yfir tölur sem snúa að þeim framlögum sem hafa farið í kerfið og það er fyrirspurn frá hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni um það og ég vænti þess að við getum dreift því svari fljótlega.

Það er hins vegar ekki einfalt að bera saman stöðuna nákvæmlega eins og hún var 2008 og hvaða áhrif einstakar breytingar hafa haft. Við erum að gera okkar besta. Ég hef hins vegar margítrekað sagt í þessum ræðustól að ég tel að fyrri ríkisstjórn og með stuðningi þingsins hafi reynt sitt besta til að standa vörð um þá sem höfðu minnst á milli handanna. Það sýna þær tölur, hvort sem er þær sem við höfum kallað eftir í velferðarráðuneytinu eða á vegum starfshóps sem er starfandi, að þeir sem urðu verst fyrir þessum skerðingum er fólk sem er með milli- og hærri tekjur.

Það breytir því ekki að það þarf að gera betur. Ég hef lagt mikla áherslu á að huga að því að við getum framlengt á einhvern hátt samkomulag um víxlverkanir á milli lífeyrissjóða og almannatrygginga. Ég tel að mjög mikilvægt sé að við horfum til þess að setja aukna fjármuni í framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks. Ég tel jafnframt mjög mikilvægt að við hugum að því hvernig við getum hjálpað fólki að komast aftur inn á vinnumarkaðinn þegar það hefur orðið fyrir því að starfsgetan hefur skerst. Þar er VIRK-starfsendurhæfingarsjóður virkilega mikilvægur og ég tel mikilvægt að ríkissjóður fari vel yfir það hvernig hann getur stutt við þá starfsemi, sem hefur því miður ekki getað verið fyllilega í samræmi við það sem hefur áður verið talað um.

Á fundi Öryrkjabandalagsins var kynnt rannsókn um áhrif þess að færa málefnið yfir til sveitarfélaganna. Þar kom fram að um helmingur öryrkja er ekki virkur, ekki í vinnu, ekki í námi, ekki í atvinnuleit, ekki virkur á neinn hátt. Það hlýtur að vera nokkuð sem við þurfum að horfa til, að það sé einhvers konar virkni, hvernig við getum hjálpað fólki að vera virkt. Í mínum huga er besta leiðin til að hjálpa einstaklingnum að gera honum kleift að hjálpa sér sjálfur.

Það á kerfið að gera, það er hugsunin með þeim breytingum sem við erum að huga að varðandi almannatryggingakerfið sjálft, (Forseti hringir.) en hins vegar held ég líka að þessi þingheimur hafi aftur og aftur sýnt að við viljum svo sannarlega standa vörð um þá sem minnst hafa, þá sem standa allra verst. Ég veit að ég get treyst á stuðning þingheims hvað það varðar, eins og kom fram í máli hv. þm. Birgittu Jónsdóttur.