143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

almannatryggingar og staða öryrkja.

[15:58]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, fyrir að hefja þessa umræðu. Á liðnu ári var gengið til þess að draga til baka skerðingar frá 1. júlí 2009 en þá voru lífeyrissjóðstekjur látnar skerða grunnlífeyri elli- og örorkulífeyrisþega í fyrsta sinn, en fram að þeim tíma höfðu einungis atvinnu- og fjármagnstekjur skert grunnlífeyri.

Núverandi ríkisstjórn hefur því aukið framlög til lífeyristrygginga á milli ára um meira en 10%. Þetta var mikilvægt skref í þá átt að bæta kjör öryrkja og annarra lífeyrisþega, hins vegar þarf að gera betur í að bæta kjör þessara hópa og koma þeim á ásættanlegan stað. Nú er vinna í gangi þar sem unnið er að endurskoðun almannatryggingakerfisins þar sem ein megináherslan er á starfsgetumat. Þar er horft til þess hvað fólk getur en ekki gengið út frá því sem það getur ekki.

Starfsgetumat er heildrænt mat sem metur færni einstaklingsins út frá líkamlegum, andlegum og félagslegum forsendum til að taka virkan þátt í samfélaginu. Það metur styrkleika og hindranir einstaklingsins með tilliti til atvinnuþátttöku og getu hans til að afla sér tekna. Lögð er áhersla á að virkja einstaklinginn, bjóða honum fljótt einstaklingsmiðaða endurhæfingu og fjarlægja vinnuletjandi farartálma.

Litið er á starfsgetumat sem eitt órofa ferli mats annars vegar og virkniaukandi aðgerða og/eða starfsendurhæfingar og meðferðar hins vegar. Í rannsókn Félagsvísindastofnunar HÍ og Rannsóknaseturs í fötlunarfræðum fyrir Öryrkjabandalagið kom fram að helmingur fatlaðs fólks og öryrkjar er ekki virkur, ekki í vinnu, námi, dagþjónustu eða atvinnuleit. Því þarf að breyta svo unnið verði markvisst með þá styrkleika sem einstaklingurinn hefur og hann hvattur áfram svo hann verði eins virkur í sínu umhverfi og hægt er og þeir sem það geta hafi möguleika á þátttöku á vinnumarkaði.