143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[18:22]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég get byrjað á því að segja að ég tek undir með hv. þingmanni um nauðsyn þess að endurskoða tekjustofna Vegagerðarinnar, en tek þá jafnframt undir með hv. þm. Helga Hjörvar sem nefndi áðan að fyrir liggur frumvarp um lækkun eldsneytisskatta og annars. Það er því svolítil þversögn í þessu hjá hv. þingmanni. Hann gæti kannski skýrt nánar fyrir okkur hvernig hann vildi nálgast það.

Mig langar til að spyrja að tvennu. Hv. þingmaður talaði um að þverpólitísk sátt ríki um vegamál. Jú, auðvitað er það svo að mestu leyti enda vegamálin mikilvægur málaflokkur sem varðar okkur öll og sérstaklega byggðir landsins; og landsbyggðirnar í fleirtölu eins og ég kýs að tala um. En eitt hnýt ég sérstaklega um og það eru hugmyndir hv. þingmanns um einkaframkvæmdir í vegakerfinu. Ég vil til að mynda benda á Vaðlaheiðargöng, það fyrirtæki er í opinberri eigu, fyrirtækið sem rekur þá framkvæmd að öllu leyti. Einkaframkvæmdir eru vafasamar í mínum huga fyrir þann þátt sérstaklega að við semjum í raun frá okkur vald til vegagerðar og til framtíðaruppbyggingar og skipulags vegakerfisins, með því að láta uppbyggingu vegakerfisins í hendur einstakra fyrirtækja og einkaaðila.

Vegakerfið hefur það merkilega hlutverk að gera okkur kleift að búa í þessu landi og því spyr ég: Er allt í lagi að hafa gróða af því? Öll fyrirtæki byggja náttúrlega á hagnaðarvon og snúast, þegar upp er staðið, um að hafa gróða af einhverju. Þetta eru í mínum huga innviðir sem skipta miklu máli og mér finnst sjálfum ekki í lagi að hægt sé að hafa af því gróða beinlínis. Og þar kannski greinir okkur á.