143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[18:28]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það seinasta sem þingmaðurinn kom inn á, hvaða svör ég hafi eða lausnir á því, þá vildi ég gjarnan hafa það. En ég vil bara segja: Við verðum að viðurkenna ákveðna stöðu í því máli. Við verðum að vinna út frá því hvaða leið er nákvæmlega best í þeim efnum, því get ég ekki svarað í stuttu andsvari úr ræðustólnum, ég lýsi mig vanbúinn til þess.

Varðandi það hvort menn hagnist á vegum og vegaframkvæmdum þá verður það vonandi þannig að þeir sem leggja vegi og bjóða í þau verk hagnist á því. Ég segi einfaldlega: Við eigum að fara í gegnum umræðuskaflinn um það að flýta samgöngubótum á Íslandi með einkaframkvæmd, ég vil alls ekki útiloka það.

Hvaða ramma við setjum um það? Ég held að fæðst hafi einn anginn af þeirri umræðu í samskiptum okkar í ræðustólnum, mínum og hv. þm. Edwards Huijbens, þ.e. hvort fyrirtæki sem fara í slíkar samgöngubætur eigi að hagnast verulega mikið.

Einkaframkvæmd er í mínum huga ekki skammaryrði í samgöngumálum, hvorki í vegamálum né flugvallarmálum. Ég gæti vel séð fyrir mér að til dæmis mætti efla flug á Íslandi með því að gefa aðilum kost á að taka flugvelli til rekstrar svo að ég bæti nú aðeins í í þessum málaflokki.