143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[18:54]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurn hv. þingmanns.

Varðandi gróðann af félögum sem eru stofnuð til þess að fara í einkaframkvæmd þá man ég það nokkurn veginn að þegar farið var af stað með Hvalfjarðargöng, sem kostuðu u.þ.b. 3 milljarða, var hlutaféð um 80 milljónir. Það verður greitt til baka með eðlilegri ávöxtun þegar göngunum verður skilað til ríkisins. Það er eins og að hafa peningana í banka og er svo sem ekki neitt stórkostlegt sem fjárfestar fá út úr því, enda held ég að fæstir af þeim hafi litið á það sem gróðafyrirtæki. Þeir fá á tímabili ekki neitt út úr þessu.

Ég tek undir með hv. þingmanni um eflingu byggðalínu, en ég vil mótmæla því að okkur komi framkvæmdirnar í Helguvík ekki við. Ég held að það hefði ekki verið óeðlilegt að gerður hefði verið sambærilegur fjárfestingarsamningur við Helguvík og var gerður á Bakka, sem var afar ánægjulegt og gott verk. Vonandi verður hægt að gera það.

Ég man ekki síðustu spurninguna. (Gripið fram í.) Já, um skemmtiferðaskip í Þorlákshöfn. Ég er nú bara að kasta þessu fram. Þetta hefur verið eitt af því sem menn hafa rætt og þetta er nálægt markaðnum. Núna er einhver sveifla á Austfirðingum með skipið og þeir eru svolítið að bítast um það. Mér finnst persónulega mjög óheppilegt að það skuli vera þannig. En það þýðir líka að fleiri hafnir fara að blanda sér í þá umræðu. Ef skipið er á einhverju ferðalagi með höfnina er ekkert óeðlilegt að fleiri líti til þess. Þetta er gríðarlegt tækifæri. En ég hefði viljað, eins og í öllum málum sem sveitarfélög gera sín á milli, að menn stæðu við samninga. Það er mikilvægt.