143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[21:40]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er rétt sem hér hefur komið fram að Súðavíkurgöng eða snjóflóðavarnir á því svæði eru orðnar brýnar og veðrabreytingarnar hafa verið þannig að snjóflóðin hafa aftur orðið tíð á svæðinu. Ég tel nú samt eðlilegt að menn haldi sig við þá áætlun sem er á Vestfjörðum, að menn ljúki við Vestfjarðaveg 60, eða reyni að hafa hann í forgangi, og Dýrafjarðargöngin og Dynjandisheiðina. Síðan komi þá Súðavíkurhlíðin þar á eftir en engu að síður tel ég það vera mikilvægt svæði sem þarf að laga.

Varðandi Árneshrepp er það alveg eins. Búið er ítrekað að gera áætlanir um hvernig eigi að fylgja eftir byggð á þessu svæði. Síðan hefur það aldrei enst, menn hafa aldrei fylgt því eftir og aldrei klárað þær byggðaáætlanir. Það er svo sem í raunveruleikanum einkennandi fyrir okkur að við höfum ekki almennilegar byggðaáætlanir. Og af því að við höfum verið að ræða mikið ESB, þó að við séum ekki sammála um það mál, þá er það eitt af því sem er mjög sterkt og mundi styrkja til dæmis það svæði gríðarlega mikið. En auðvitað þarf að halda áfram og ljúka vegum þar. Ég hef sagt að ef menn ætla ekki að þjónusta umrætt svæði mun það leiða til þess að byggð leggst af. Og ef byggð leggst af mun krafa koma um það að búin verði til einhver byggð til að mæta þörfum höfuðborgarsvæðisins til að komast á það svæði. Þá er nú betra að hindra að byggð leggist af og búa þannig um svæðið að mögulegt sé að búa þar og byggð geti verið þar allt árið.

Þar tengist líka flugið vegna þess að nú erum við til dæmis að sjá það að seinkun er á endurbótum á flugvellinum á Gjögri og þar af leiðandi er vandræðagangur í sambandi við það flug, sem er auðvitað óþolandi ofan á allt annað. Við höfum ekki rætt um nettengingar og annað sem gerir allt svæðið búsældarlegra eða réttara sagt, það er eiginlega orðin forsenda byggðar að menn séu í góðu netsambandi hvar sem er á svæðinu. (Forseti hringir.) Það er einn þátturinn, en ég get nefnt fleiri eins og raforkuöryggi.