143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

flutningur netöryggissveitar til ríkislögreglustjóra.

520. mál
[23:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég taldi mig nú skilja almennan tilgang frumvarpsins og við fyrstu sýn, án þess að umræðan hafi átt sér stað, er ég alveg hlynntur því. Vissulega á þetta að vera hluti af almannavarnakerfi landsins, ég er sammála því. Ég er enn fremur sammála því og skil mjög vel að Póst- og fjarskiptastofnun ætti ekki að sinna bæði þjónustu og eftirliti og því er eðlilegt að þessi verkefni flytjist til ríkislögreglustjóra.

Það eina sem ég skil ekki alveg er hvers vegna Póst- og fjarskiptastofnun er viðriðin málið, hvers vegna þetta er ekki bara alveg flutt yfir til ríkislögreglustjóra. En ég náði því í seinasta hluta svars hæstv. ráðherra að þar sé um sérfræðiþekkingu að ræða sem ríkislögreglustjóri gæti viljað nýta sér. Ég tek það alveg til greina en ég spyr þá hvort það muni breytast og öll starfsemin fari í framtíðinni til ríkislögreglustjóra.