143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

staða hafrannsókna.

[13:38]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að taka þetta mál hér upp. Hafrannsóknastofnun gegnir lögum samkvæmt mjög mikilvægu ráðgjafarhlutverki varðandi skynsamlega nýtingu auðlinda hafsins. Óhætt er að fullyrða að rannsókna- og vöktunarþátturinn sé langumfangsmestur í starfsemi stofnunarinnar. Eins og kunnugt er hafa fjárframlög til stofnana ríkisins dregist saman á hverju ári frá 2009. Fjárframlög til Hafró voru þó tryggð umfram margar aðrar stofnanir stjórnsýslunnar, eins og fram kom í ræðu hv. þingmanns, með sérstökum fjárveitingum úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins.

Stofnunin er einnig rekin af sértekjum. Meðal sértekna eru fjárveitingar úr fyrrnefndum sjóði. Hann hefur verið nýttur til að tryggja fjárframlög til Hafró allt frá árinu 2008 og hefur stofnunin umfram aðrar notið tekna sjóðsins. Tekjur sjóðsins eru þó mjög sveiflukenndar, hafa frá árinu 2008 sveiflast frá 427 millj. kr. og voru hæstar tæpar 800 millj. kr. á árinu 2010.

Á allra síðustu árum hafa tekjur sjóðsins farið lækkandi og námu um 453 millj. kr. árið 2013.

Hafrannsóknastofnun hefur fengið bróðurpartinn af tekjum verkefnasjóðsins eða alls 2.401 millj. kr. á sex ára tímabili. Þegar tekjur sjóðsins voru hæstar, árið 2010 fékk Hafró úthlutað um 56% af tekjum hans, 2011 um 80%, 2012 fékk stofnunin ráðstafað fjármagni 5% umfram tekjur sjóðsins það árið og 2013 9% umfram tekjur sjóðsins.

Aðrar stofnanir sem einnig gegna mikilvægu hlutverki í rannsóknum, nýsköpun og eftirliti í sjávarútvegi fjármagna verkefni í gegnum sjóðinn en dregið hefur úr framlögum til þeirra til að tryggja fjármögnun til Hafró. Verulega hefur gengið á eigið fé sjóðsins undanfarin tvö ár með fjárveitingum umfram tekjur. Það hefur því verið ljóst í nokkur ár í hvað stefndi og að styrkveitingar til Hafró mundu lækka án þess að sérstaklega hafi verið tekið á því.

Hafró hefur einnig sértekjur af sölu afla úr rannsóknarleiðöngrum. Eins og kunnugt er hefur rekstrarumhverfi sjávarútvegsins versnað og verð á mörkuðum lækkað umtalsvert undanfarna mánuði. Það hefur haft áhrif á tekjur Hafró eins og annarra fyrirtækja í sjávarútvegi af sölu afla. Í rekstraráætlun ársins 2013 reyndust þær því nokkuð ofáætlaðar og rekstur stofnunarinnar því neikvæður. Þetta er staðan og úr henni þarf að vinna.

Til þess að tryggja fjármögnun haustrallsins fyrir botnfisksveiðar í ár hafa stofnuninni því verið veittar auknar aflaheimildir til rannsókna. Rallið verður unnið í auknu samstarfi við sjómenn. Þannig mun Hafró í gegnum útboð auglýsa eftir skipum sem þykja hæf til rannsóknarinnar, leggja til heimildirnar og fá hluta tekna af sölu aflans. Hafró mun skipuleggja leiðangrana og sjá um alla úrvinnslu gagna. Úthald er stór kostnaðarliður hjá stofnuninni og munar því um að þurfa ekki að gera út skip til leiðangra.

Starfsmannafjöldi stofnunarinnar hefur allt frá árinu 2007 verið stöðugur eða frekar fjölgað. Starfsmönnum hefur fækkað í ár og eru nú 8,5 ársverkum færri en árið 2007. Er áætlað að ársverkin í ár verði 135. Það er alltaf miður þegar segja þarf fólki upp. Það getur þó verið nauðsynlegt í aðhaldsaðgerðum eða endurskipulagningu og ég treysti forstjórum stofnana ríkisins sem standa frammi fyrir því verkefni að fara í þær aðgerðir á grundvelli forgangsröðunar verkefna.

Þá er unnið að sameiningu Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar. Nokkur samlegðaráhrif eru í verkefnum beggja stofnananna sem eiga að leiða til hagræðingar og þar með aukinna tækifæra í rekstri. Dæmin sanna þó að slík hagræðing skilar sér ekki strax og ljóst að hún leysir ekki það vandamál sem við stöndum frammi fyrir í dag.

Ég er sammála því að mikilvægt er að Hafró, eins og aðrar stofnanir ríkisins, geti staðið undir hlutverki sínu. Við þurfum að tryggja öflugar rannsóknir og stuðla að sjálfbærri nýtingu fiskstofna okkar. Við þurfum að hafa svigrúm til að bregðast við nýjum verkefnum eins og til dæmis auknum makrílrannsóknum, rannsóknum tengdum súrnun hafsins og kortlagningu hafsbotnsins.

Undanfarin ár hefur fjármagn ekki fylgt nýjum verkefnum. Þegar verið er að draga saman í ríkisrekstri eða endurskipuleggja þarf að forgangsraða nýtingu þess fjármagns sem úr er að spila. Í ár var ákveðið að forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins og verja velferðina. Það þarf við fjárlagagerð næstu ára að tryggja mikilvægustu rannsóknarstofnunum ríkisins traust rekstrarfé sem ekki grundvallast á ótraustum sjóðaframlögum og velta því upp hvernig hægt sé að forgangsraða til þeirra.

Ég legg áherslu á það verkefni sem við erum í nú. Við getum ekki treyst á aukið fé í fjárlögum til allra stofnana. Við getum heldur ekki treyst á að hægt sé að bæta upp fjárþörf Hafró með framlögum úr verkefnasjóði. Við þurfum að fara yfir hvernig nýta megi það fé sem til stofnunarinnar fer á sem bestan hátt, hvernig hægt sé að auka samstarf við sjómenn og mögulega stunda hagkvæmar rannsóknir á þann hátt. Þarna þarf þó sjálfstæði rannsóknar að vera í fyrirrúmi.

Að þessu sögðu vil ég leggja (Forseti hringir.) áherslu á að framlög til Hafrannsóknastofnunar hafa lækkað. Lengra er ekki hægt að ganga og betur þarf að gera. Ég mun beita mér fyrir því að rekstrargrundvöllur Hafró (Forseti hringir.)sé tryggður og grunnrannsóknum sinnt og það endurspeglist í fjárframlögum. Til að vinna að þessu óska ég eftir góðu samstarfi við þingið og þingmenn.