143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[16:22]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Já, það er ákveðið í lögum, virðulegur forseti, hvort deiliskipulagið rennur út eða ekki. Eftir því sem ég skil best gæti sveitarfélagið ekki tekið þá ákvörðun sjálft, ef deiliskipulag er í gildi á grundvelli skipulagslaga er það í gildi samkvæmt lögum. Mér finnst hins vegar alveg umræðunnar virði hvort sveitarfélag gæti gert einhverjar slíkar samþykktir þar sem það væri skilningur sveitarfélagsins, þannig að sá sem á viðkomandi byggingarreit gæti vitað fyrir fram að sveitarfélagið hefði þann skilning eða þá sýn o.s.frv. að ganga þyrfti til endurskoðunar á deiliskipulaginu að uppfylltum einhverjum skilyrðum ef einhverjar uppákomur væru. Síðan hvaða stöðu slíkar samþykktir eða bókanir eða hvað það er hefðu frammi fyrir dómi, það er allt önnur saga. Ef við ætluðum að vera örugg þyrftum við að gera þetta í lögum, tel ég vera.

Af því að hv. þingmaður segir: Það er enginn vandi að auka byggingarmagn á lóð, en það er einhvern veginn svo mikill vandi að draga úr því. Ég þekki það sjálf eftir að hafa verið í skipulagsráði Reykjavíkurborgar og hafa átt í samskiptum við fólk sem var alltaf kallað „aðilar“. Það kom aðili og hitti mig í gær, sagði fólk. Af því að um leið og maður var að fara að framkvæma eitthvað var maður ekki lengur maður, þá breyttist maður í aðila. Þau samtöl snerust einmitt mjög gjarnan um væntingar um að auka byggingarmagn. Maður hefði svo gjarnan viljað að kjósendur og borgarbúar sæju hversu oft þessir aðilar voru reknir til baka og sagt: Þetta er vond hugmynd. Einstöku sinnum fór í gang samtal þar sem þeir hagsmunir höfðu betur, en miklu oftar reyndum við að minnsta kosti sem þá vorum í meiri hluta að gæta heildarhagsmuna, en það eru óþolandi mörg dæmi um hið gagnstæða.