143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[17:43]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við hv. þingmaður erum algerlega sammála í þessu efni, enda er hv. þingmaður reyndur sveitarstjórnarmaður úr Hafnarfirði og þekkir væntanlega vel til skipulagsmálanna þar. Ég tek undir að þetta eru sömu viðfangsefnin og sveitarfélögin stór og smá eru að glíma við. Kannski er staðan jafnvel enn erfiðari hjá minni sveitarfélögunum sem hafa kannski ekki alveg sama bolmagn og stærri sveitarfélög, hafa kannski ekki sínar eigin skipulagsdeildir eða skipulagsfulltrúa eða kannski bara einn starfsmann eða eitthvað þess háttar, meðan stærri sveitarfélög eru með heilu deildirnar og búa yfir mikilli sérþekkingu sem geta mætt sérfræðingum hinna fjársterku aðila í rökræðu. Þetta er jafnvel enn erfiðara fyrir smærri sveitarfélög.

Ég álít að mikilvægt sé að þessi réttarstaða sveitarfélaganna sé sterk. Ég tel að hv. umhverfis- og samgöngunefnd, af því að ég sé að einhverjir úr þeirri nefnd eru í salnum, þurfi að spyrja þeirra spurninga: Af hverju er þessi breyting gerð? Er hún efnisleg eða er hún ekki efnisleg? Ef hún er ekki efnisleg, af hverju er þá verið að gera orðalagsbreytingu? Af því að orðalagsbreytingin hlýtur að hafa eitthvað efnislegt í för með sér. Ef ekki, þá er ágætt að fá það fram, af því að nefndarálitið í öllu falli verður að gera grein fyrir því hvaða skilning nefndin leggur í nákvæmlega þessar breytingar.

Ég mælist til þess að nefndin spyrji um nákvæmlega þetta: Hver er tilgangurinn hér? Til hvers er þetta? Og hvaða afleiðingar hefur þetta í för með sér fyrir stöðu sveitarfélaganna við skipulagsgerðina?