143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[18:18]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um þetta frumvarp og atriði sem mér þykir vert að vekja máls á og eftir atvikum taka undir með öðrum sem hafa látið til sín taka í þessari umræðu í dag. Fyrst vil ég segja að mér þykir góður bragur á þessu frumvarpi. Það er vel úr garði gert og ánægjulegt að sjá að áfram skuli haldið með vinnu við lagabreytingar af þessum toga sem byggja á langvarandi undirbúningsvinnu og víðtækum athugasemdum sveitarfélaganna um útfærslu lagabreytinganna.

Ég tek líka eftir að hér eru mörg ákvæði sem lúta að praktískum útfærsluatriðum. Ég í mínu fyrra starfi sem lögmaður rak mig stundum á að í hinum flókna frumskógi skipulagslöggjafar og svo annarrar löggjafar sem lýtur að ýmiss konar leyfisskyldu geta tímafrestir stangast á, þeir ganga ekki alveg upp og eru stundum ekki mjög praktískir. Ég tek eftir því að hér er í nokkuð mörgum greinum lagt til að breyta einstökum tímafrestum sem gilda um ákvarðanir sveitarstjórnar, hversu langan tíma sveitarstjórnir hafi til umþóttana í tilteknum tilvikum og svo framvegis. Allt sýnist mér þetta vera til bóta auk þess sem ég fæ ekki betur séð en reynt sé að auka á sveigjanleika í skipulagslöggjöfinni sem er líka til góðs. Ég nefni þar sérstaklega ákvæði 5. gr. frumvarpsins sem gerir ráð fyrir að skýrt verði kveðið á um það í lögum að heimilt verði að veita framkvæmdaleyfi jafnvel þótt deiliskipulag liggi ekki fyrir, að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum sem eru tilgreind í greininni, ef hin leyfisskylda starfsemi er með þeim hætti að fyrir henni hafi verið gerð ítarleg grein í aðalskipulagi. Þetta er gott dæmi um jákvæða, praktíska breytingu.

Mér finnst líka jákvætt að sjá breytinguna í 6. gr. Hún tengist kannski þeirri umræðu sem hér hefur orðið um réttindi og skyldur í skipulagslöggjöf, jafnt sveitarfélaga og eigenda fasteigna. Í 6. gr. er gert ráð fyrir að sveitarstjórn verði heimilt að leggja dagsektir á framkvæmdaraðila eftir eitt ár í stað tveggja ára nú. Heimildir hafa verið til að fella framkvæmdaleyfi úr gildi, en nú er verið að auka hin vægari úrræði. Þetta er hluti af því ástandi í skipulagsmálum á undanförnum árum og því sem maður hefur á köflum haft á tilfinningunni í þeim efnum að framkvæmdaraðilar hafi átt og eigi alls kostar við sveitarstjórnir og stjórnvöld á sviði skipulagsmála og hafi úrræði til að knýja fram bætur og breytingar en búi við frekar takmarkaða skyldu sjálfir. Það er mikilvægt að mjög skýrt sé kveðið á um möguleikann á því að knýja menn til aðgerða fyrr og þá með dagsektum.

Virðulegi forseti. Ég ætla aðallega að fjalla um 20. gr. frumvarpsins sem felur í sér breytingu á hinni víðfrægu 51. gr. skipulagslaga, sem fjallar um bótarétt vegna breytinga á skipulagi.

Fyrirætlan framkvæmdaraðila um byggingu á stórum turni í Skuggahverfi í Reykjavík hefur mikið verið í umræðunni undanfarna mánuði. Svo ankannalega horfir við að öll stjórnmálaöfl í borgarstjórn Reykjavíkur eru sammála um að þau mundu ekki vilja að af þessari framkvæmd yrði. Í krafti gildandi skipulags og gamalla áforma hefur hins vegar framkvæmdaraðilinn öll tök og getur knúið fram framkvæmd sem er á almannavitorði og almennt viðurkennt að samrýmist ekki ráðandi viðhorfum til skipulags- og byggingarmála í borginni. Þetta mál verðskuldar sérstaka umræðu og umfjöllun. Auðvitað skiptir máli að ákveðinn fyrirsjáanleiki ríki um rétt fasteignareigenda til að nytja eignir sínar og að fyrirheit sem gefin hafi verið um notkunarmöguleika þeirra standi. Á hinn kantinn er algjörlega fráleitt að almannavaldið verði með þessum hætti fangi ákvarðana sem teknar eru í krafti tíðaranda á ákveðnum tímapunkti. Við gætum rætt ítarlega þær breytingar sem orðið hafa á viðhorfum til borgarskipulags á síðustu 20 árum. Það sem mönnum þótti eðlileg byggingaráform og hugmyndir fyrir 30 árum síðan þykja í dag groddalegar — (Gripið fram í.) já, jafnvel bara fyrir átta árum eins og hér er bent á, og langt umfram það sem menn geta sætt sig við.

Blessunarlega er það þannig að viðhorf til borgarskipulags og skipulagsmála þróast og þroskast í áranna rás. Það er jákvætt að borgin sé þannig lifandi eining og taki breytingum eftir því sem andrúmsloftið breytist. Það er auðvitað athyglisvert að það er bara á einum stað, í leiðurum Morgunblaðsins, þar sem þess verður vart að engin breyting hafi orðið á áratugagömlum viðhorfum til forgangs steinsteypu og bíla fram fyrir mannlíf í höfuðborginni. Maður sér í grónum borgum vitni um nákvæmlega þetta, hvernig viðhorf til landnýtingar og viðhorf til manngerðs umhverfis breytast frá einum tíma til annars. Það er óeðlilegt að binda almannavaldið niður með þeim ríka hætti sem gert er að gildandi löggjöf.

Ég hef lesið greinargerðina með frumvarpinu og umfjöllun um breytingu á orðalagi á 51. gr. Í umfjöllun í greinargerðinni er vikið mjög að forsögu þessa ákvæðis og hún rakin allt aftur til 29. gr. skipulagslaga frá 1964. Ég skil umfjöllunina þannig að í reynd virðist eitthvað hafa fallið niður, eiginlega fyrir misgáning, í gildandi skipulagslögum, ekki hafi upplýst ákvörðun um breytingu á bótarétti ráðið því orðalagi sem nú er um bótaréttinn í 51. gr. gildandi skipulagslaga. Það hafi sem sagt aldrei staðið til að breyta efnisinntakinu en í fyrri ákvæðum var bótaréttur bundinn við hinar sérstöku skerðingar eignarráða, þ.e. skerðingar sem voru með öðrum hætti en aðrir sambærilegir aðilar máttu búa við en ekki almennar skerðingar sem allir þurftu að búa við.

Í frumvarpstextanum er kveðið skýrt á um og gert ráð fyrir því að bótarétturinn sé háður því að verðmæti fasteignar skerðist verulega umfram það sem á við um sambærilegar eignir í næsta nágrenni. Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Styður þessi forsaga bótaákvæðisins […] þá ályktun að hið breytta orðalag, sem hér er lagt til í 1. mgr. frumvarpsákvæðisins, feli hvorki í sér rýmkun bótaréttar né takmörkun hans, heldur miði breytingin aðeins að betri skýringu réttarins.“

Með þessu virðist ætlunin ekki vera að breyta efnisinntaki bótaréttarins. Það eru kannski þessi orð í greinargerðinni sem vekja mér frekar áhyggjur. Ég mundi telja æskilegt að hv. efnahags- og samgöngunefnd tæki til athugunar hvort hér sé nægjanlega skýrt á kveðið til að tryggja hina efnislegu niðurstöðu sem ég held að við vildum flest sjá, þ.e. ríkari heimildir almannavaldsins til að takmarka byggingaráform eftir á ef ekki hefur verið hafist handa um framkvæmdir innan eðlilegs, hóflegs umþóttunartíma og framkvæmdir byggja á skipulagshugmyndum sem eru annars eðlis en almennt er viðurkennt í dag.

Í greinargerðinni — og ég vil almennt hrósa þessari greinargerð — er fjallað um gildistíma skipulagsáætlana og bótaskyldu í þessu samhengi og er þar mikil efnisgreining á hliðstæðu við norrænan rétt. Þar segir, með leyfi forseta:

„Viss rök eru fyrir því að tengja saman umræður um gildistíma skipulagsáætlana og svo umræðu um þau eignarréttindi sem skipulagsáætlanir mögulega kunna að skapa. Ef gildistími áætlunar er afmarkaður í tíma má gera ráð fyrir að væntingar fasteignareiganda um þau réttindi sem leiðir af skipulaginu, svo sem byggingarrétt, verði einnig afmarkaðar í tíma, og að heimilt verði að leggja upp nýtt skipulag án bótaskyldu að gildistímanum loknum, enda hafi ekki þegar verið framkvæmt eftir hinu gildandi skipulagi.“

Síðan er fjallað um skýringarkosti í þessu efni og hversu langt verði hægt að ganga. Þar segir, með leyfi forseta:

„Við samningu þessa frumvarps hefur ekki verið tekin endanleg afstaða til þess hvort lögfesting ítarlegri reglna en nú gilda um gildistíma skipulagsáætlana kunni að vera æskileg á síðari stigum.“

Í ljósi þeirrar umræðu sem hefur orðið svo fyrirferðarmikil sem raun ber vitni í Reykjavík á undanförnum mánuðum vil ég sérstaklega hvetja umhverfis- og samgöngunefnd til að gera því nokkra gangskör að vinna á þessum góða grunni sem þetta frumvarp veitir og freista þess að finna leið sem gerir okkur kleift að ná utan um óheillaþróun eins og þá sem við upplifum nú varðandi byggingaráform í Skuggahverfinu.