143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[18:47]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er búinn að finna málsgreinina sem ég ætlaði að vitna í áðan en fann ekki, hún er á bls. 26 í frumvarpinu, í lok umfjöllunar um 20. gr. þar sem þessum möguleika er einmitt velt upp. Þar er vísað í að sænsk skipulagslög hafa að geyma reglur um gildistíma skipulagsáætlana í þeim tilgangi að tryggja möguleika stjórnvalda til að bregðast við breyttum aðstæðum í samfélaginu og breyta skipulagsáætlunum. Þau eru mun nákvæmari en íslensku lögin um meðferð skipulagsvaldsins um hvaða takmarkanir má leggja á eignarráð og í hvaða tilgangi það verður gert.

Þar með er niðurstaðan sem hægt er að lesa úr þessu sú að það skiptir máli um réttarvernd borganna að þetta sé ekki heldur haft algerlega opið í hina áttina, tryggja verði réttarvernd borgaranna á móti. Í greinargerðinni segir að ákveðin hætta sé af löggjöf sem feli í sér fyrirvaralausa reglu um tímamörk skipulagsáætlana, í þeim tilgangi að takmarka bótarétt fasteignareigenda, án þess að um leið séu settar takmarkanir á heimildir stjórnvalda um meðferð skipulagsvaldsins og breytinga á skipulagsáætlunum. Slík löggjöf gæti talist fela stjórnvöldum svo vítt svigrúm til breytinga að það breyti gegn stjórnarskrárbundnum réttindum. Þess vegna er það niðurstaða frumvarpshöfunda að breytingar sem fela í sér kröfur um tímamörk skipulagsáætlana kalli á umtalsverðan undirbúning og breytingar á mun fleiri ákvæðum laganna en einvörðungu bótareglunum.

Mér finnst hins vegar full ástæða til að umhverfis- og samgöngunefnd meti það í ljósi aðstæðna sem upp eru komnar og þessara fjölmörgu dæma, hvort þær breytingar sem hér eru gerðar séu í reynd fullnægjandi til að bregðast við þeim vanda sem er raunverulegur í fjöldamörgum sveitarfélögum. Ef ekki, þá er þess vegna hægt að samþykkja þessar breytingar núna og nefndin leggi það einfaldlega upp við ráðuneytið að halda áfram vinnunni um hina þættina og byggt verði frekar (Forseti hringir.) á hinu sænska fordæmi og frekari afmörkun jafnt réttinda og skyldna í þessu efni.