143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[19:11]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin og aftur spurningarnar. Ég þakka honum fyrir þá ábendingu sem ég dró fram í ræðu minni um að þessar breytingar snúa að ýmsu öðru þó að aðalþunginn sé á þetta með bótaréttinn. Það er verið að uppfæra og lagfæra ýmis ákvæði, eins og hv. þingmaður tíundaði, sérstaklega um varamenn í svæðisskipulagsnefndum. Þar voru vandræði. Í þeirri svæðisskipulagsnefnd sem ég sat í var ekki skýrt hvort skylt væri að skipa varamenn og með hvaða hætti það yrði gert. Nú er það þó að minnsta kosti skýrt. Það er gott.

Ég fagna því sérstaklega vegna þess að ég tel einmitt að formgering skipulagsferlisins og stafrænnar gagnaveitu gæti verið á grundvelli svæðisskipulags, þ.e. að í stað þess að horfa til lögbundinnar sameiningar sveitarfélaga á að horfa til samvinnu í skipulagsmálum í gegnum svæðisskipulag. Þar væri vettvangurinn til innleiðingar stafræns fyrirkomulags á skipulagsgögnum og það eflir tækið sem svæðisskipulagið er. Það gerir svæðisskipulag að öflugra tæki til skipulagsmála með því að þetta geti verið liður í þeirri formgeringu, að það verði sem sagt á forsvari og hendi svæðisskipulagsnefndanna að koma gögnum á stafrænt form. Þau verða þá að fá til þess fé, mannafla og kraft. Það snýr einmitt að hæfinu, það þarf mannauð, hæfi og ákveðinn skriðþunga til að halda úti öflugri skipulagsgerð. Þó að núgildandi lög séu mjög góð og girði fyrir úr mörgum áttum held ég að mistök eigi sér stað í gegnum umsagnarferli og álitsgerðir frá Skipulagsstofnun og öðrum aðilum. Oft gæti sú vinna verið auðveldari ef vinna skipulagsnefnda og skipulagsdeilda væri ítarlegri og betri (Forseti hringir.) og einkenndist af meiri fagmennsku í sumum tilfellum, þó er það alls ekki algengt, langt í frá.