143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[19:16]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisvangaveltur og spurningar. Já, það vill svo til að skipulagsleg samkeppni er nánast orðin föst í tungutaki ýmissa þeirra sem að skipulagsmálum koma, sérstaklega út frá þeirri hörmungarsögu sem skipulag einstakra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu gekk í gegnum í aðdraganda hrunsins og sést kannski best á tveimur ólíkum turnum á Smáratorgi og Höfðatorgi sem margir hafa líkt við keppni sem lýtur að öðru en endilega skipulagsmálum. En allt í fína.

Eins og hv. þingmaður benti á voru væntingarnar þvílíkar að horfði til auðnar á öllu landinu og þó víðar væri leitað, þvílíkar voru framkvæmdirnar. Við sjáum að það er varla að ganga eftir og við sjáum reyndar að nú eru margir af þeim byggingarkrönum, vörubílum og jarðýtum sem voru í gangi fyrir hrun að fara aftur í gang en í þetta skipti fyrst og fremst til að byggja hótel. Það er vandi að húsnæðisáætlunin hafi verið óvirk gagnvart sveitarfélögum og það þarf að gera alvörugangskör í því að gera virka húsnæðisáætlun. Eins og ég kom inn á í framsögu minni áðan er mjög mikilvægt að horfa til þeirra skipulagsmála í stærra samhengi, víðara samhengi umhverfisverndar, náttúruverndar og húsnæðisskipulagsmála. Til að mynda í mínu ágæta sveitarfélagi á Akureyri þá leggjum við nú þunga áherslu á að bærinn taki frumkvæði í uppbyggingaráformum, hvaða íbúðir skuli byggja fyrir hverja og hvar með tilliti til þess að leysa úr húsnæðisvandanum en jafnframt til að hafa um það að segja hvernig yfirbragð byggðar er og jafnvel íbúasamsetning þeirra byggða upp á blöndun íbúa til að fá meira lífvænleg hverfi, ekki hverfi ellismella og smábarna sitt á hvað.