143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[20:15]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguræðuna. Ég vil gera tvær athugasemdir í þessu andsvari. Annars vegar vil ég taka undir þær athugasemdir sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir gerði hér áðan um vísan málsins til nefndar og tel eðlilegra að málinu verði vísað til umhverfis- og auðlindanefndar, enda stafar það frá hæstv. umhverfisráðherra.

Hins vegar vil ég spyrja hæstv. ráðherra nánar út í þær athugasemdir sem hann greindi frá í framsöguræðunni um niðurstöðu, þ.e. um fyrirvara þann sem fulltrúi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í verkefnisstjórn gerði við afgreiðslu málsins að því er varðar Urriðafossvirkjun og Holtavirkjun. Hæstv. ráðherra rakti í ræðu sinni áðan að hann teldi að í reynd lægju fyrir gögn sem væru fullnægjandi að því er varðar þá fyrirvara sem verkefnisstjórnin setti um Urriðafoss- og Holtavirkjun.

Ég sé það ekki af tillögunni eins og hún hefur verið fram sett og vil gjarnan heyra frekari skýringar ráðherra á því.