143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[21:49]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér finnst gott að hæstv. forseti hafi hér á takteinum greinargerðir og umfjallanir við síðustu breytingu á þingsköpum Alþingis, en eins og hefur komið fram í máli þeirra þingmanna sem hér hafa tekið til máls þá eru líka margir matsþættir þarna undir. Einn þeirra er, með fullri virðingu, heilbrigð skynsemi. Þegar við erum að tala um breytingartillögu á þingmáli, sem áður hefur verið afgreitt og samþykkt í þinginu, var flutt af umhverfisráðherra, unnið af umhverfis- og samgöngunefnd og umhverfis- og samgöngunefnd hefur fjallað um rammaáætlun ítrekað á fundum í vetur, kemur tillaga til þingsályktunar um breytingu á þeirri vinnu og þeim umbúnaði öllum og þá á allt í einu breytingartillagan að fara í atvinnuveganefnd. Ég bið hæstv. forseta um að íhuga þennan hluta mögulegra röksemda til að snúa frá eða endurmeta þessa niðurstöðu.