143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[22:51]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Hún vekur margar vangaveltur. Hún skapar auðvitað þá hættu í huga virkjunarsinna að það þurfi þá nauðsynlega aðferðafræðinnar vegna stöðugt að vera að láta reyna á kosti sem þegar hefur verið ákveðið að skuli falla í verndarflokk. Það er ekki einfalt ef aðferðafræðin er á þann hátt að matið er alltaf afstætt, það fari alltaf eftir því hversu margir eru settir í hópinn og hvernig samsetning þeirra sem í hópnum eru í það og það skiptið er. Það einfaldar ekki verkið.

Almennt varðandi ábendingu ráðherrans eða tilgreiningu ráðherrans í erindisbréfinu finnst mér takmörk fyrir því hversu langt ráðherra getur gengið við þessar aðstæður í því að veita verkefnisstjórn bein fyrirmæli í ljósi þess lagaramma sem við búum við og mikilvægt að túlka þær heimildir þröngt. Það er mikilvægt að lagaramminn sjálfur, sem hefur fengið gríðarlega víðtækan stuðning á Alþingi Íslendinga aftur og aftur, fái að ráða verklaginu en ekki fyrirmæli ráðherra á hverjum tíma sem geta leitt til þess að afstaða verkefnisstjórnarinnar fari að hallast of mikið eftir pólitískum dægurvindum í það og það skiptið.