143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[23:23]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Því miður hefur umræðan um þetta mál snúist að meira leyti um þann ófriðareld sem hefur verið kveiktur hér með tillögu um að vísa þessu máli til hv. atvinnuveganefndar og styðjast þar við eitt orð í þingsköpum þegar fyrir liggur að málið hefur sem heild, þ.e. rammaáætlunin, verið til umfjöllunar hjá hv. umhverfis- og samgöngunefnd og verið talin umhverfismál og meira að segja verið til umfjöllunar hjá hv. umhverfis- og samgöngunefnd í vetur þar sem við höfum fylgst með störfum verkefnisstjórnarinnar og fengið hana á fund til þess að geta verið betur undirbúin fyrir þá breytingu sem við vissum að væri hugsanlega á leiðinni.

Eins og ég hef margoft sagt hér í kvöld, og ætla að ítreka enn einu sinni úr því að hæstv. forseti er á forsetastóli, er þetta svo óskynsamlegt að mér algjörlega blöskrar. Það er óskynsamlegt og bara til þess fallið að kveikja hér ófriðareld um mál sem ég hélt satt að segja að fólk vildi ná einhverjum sáttum um. Það er ekki mikil von til þess þegar svona er farið fram án nokkurs samráðs. Ég verð að segja að mér fannst ég illa svikin, ég sem er nefndarmaður í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og taldi mig vera að ræða mál í dag sem færi til þeirrar nefndar, enda mælti hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir því.

Ég gef satt að segja ekki mikið fyrir þau rök sem hafa verið færð fyrir því að þetta mál eigi að fara til atvinnuveganefndar. Ég hef þegar bent á að hv. umhverfis- og samgöngunefnd á að fjalla um byggðamál. Ég veit þá ekki af hverju og hvað hæstv. forseta finnst um það að hér liggur fyrir nefndarálit um byggðaáætlun frá atvinnuveganefnd þannig að greinilega getur þingið stundum samþykkt að vísa málum eitthvað ef þingið metur það skynsamlegt. Við það hafa ekki verið gerðar athugasemdir. Nú hafa verið gerðar mjög skýrar og málefnalegar athugasemdir. Það hefur verið óskað eftir greinargerð um fordæmi og ég ætla að ítreka það líka, úr því að hæstv. forseti er á forsetastóli, að ég tel ekki nokkur rök hníga til þess að við getum samþykkt það hvert þetta mál eigi að fara fyrr en sú greinargerð liggur fyrir. Ef hún liggur fyrir í kvöld er það ágætt en ég á ekki von á því þannig að við verðum að bíða eftir henni.

Hvað varðar það mál sem hér liggur fyrir fór ég einkum yfir rökin um laxastofnana í fyrri ræðu minni, náði að ræða hér aðeins um samfélagsáhrifin sem verkefnisstjórnin mat að ekki væri hennar hlutverk að ræða. Ég komst ekki yfir það í fyrri ræðu minni, og því miður þarf maður að eyða allt of miklum tíma hér í formsatriði sem verið er beinlínis að skapa ágreining um, en það liggur líka fyrir að verkefnisstjórnin fór ekki yfir ýmis önnur atriði, til að mynda óásættanleg áhrif á landslag og fagurfræðileg áhrif, og verkefnisstjórnin sagði hreinlega: Þessi atriði voru ekki til umfjöllunar þegar virkjunarkosturinn var færður úr nýtingarflokki yfir í biðflokk þannig að við einbeitum okkur að laxastofnunum.

Gott og vel, þetta vekur auðvitað spurningar um hvernig við túlkun þau lög sem við erum að vinna með. Nú liggur alveg fyrir að samkvæmt lögum um rammaáætlun á að meta virkjunarkosti út frá öllum stoðum sjálfbærrar þróunar, við eigum ekki bara að meta efnahagsleg áhrif, ekki bara umhverfisáhrif heldur líka samfélagsleg áhrif. Umhverfisáhrif snúast um margt, m.a. landslagsheildir og fagurfræðileg áhrif. Efnahagsleg áhrif snúast ekki bara um hagkvæmni virkjunarinnar sem slíkrar, þau hljóta líka að snúast um þau verðmæti sem við gætum verið að fórna með þessum laxastofni, þessum stærsta stofni villtra laxa sem við eigum í Þjórsá.

Þá veltir maður auðvitað fyrir sér hver heildarhugsunin sé. Því miður er þetta ekki fyrsta dæmið um það að heildarhugsunin verður undir þegar við ræðum hér virkjunarkosti í rammaáætlun. Þess er skemmst að minnast þegar sú túlkun var uppi í víðfrægri friðlýsingu virkjunarkostsins Norðlingaölduveitu þegar hætt var við þá friðlýsingu, henni slegið á frest og sú túlkun kemur upp að ekki eigi að friða vatnasvið Þjórsár neðan við virkjunarkostinn sem þó liggur algjörlega fyrir þegar lögskýringargögnin eru lesin, bæði þingsályktunin og lögin. Þegar við erum að ræða virkjunarkosti er verið að tala um stærra vatnasvið ofan virkjunarkosta og þrengra vatnasvið neðan þeirra. Það er beinlínis rætt. Því miður hefur mér þótt, rétt eins og umræðan um form á þessum fundi sýnir, að í umfjöllun um rammaáætlun horfi menn ekki á málin út frá þeirri heildarhugsun sem á að einkenna alla okkar hugsun þegar við ræðum verndun og nýtingu. Við eigum að hafa heildarhagsmunina að leiðarljósi en því miður virðast einhverjir aðilar horfa á þetta mjög þröngt út frá hinum þrönga lagabókstaf.

Ég ætlaði að gera fordæmalausar tillögur Orkustofnunar að umræðuefni. Ég hef því miður ekki tíma til þess en mun væntanlega geta gert það við síðari umr.