143. löggjafarþing — 96. fundur,  11. apr. 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.

[14:38]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa vinnu og þessa skýrslu. Ég er búin að lesa hana alla. Nei, ég er að ljúga. Engu að síður er ég búin að lesa ákveðinn kafla og vil sérstaklega víkja hér að kafla 12.2.6.2 í 3. bindi rannsóknarskýrslunnar um sparisjóðina, en hann ber heitið „Hallarbylting“ í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Segir svo, með leyfi forseta:

„Hvergi var greitt hærra yfirverð fyrir stofnfjárbréf en í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Þar háttaði svo til að stofnfjáreigendur voru ekki nema 47 talsins og höfðu verið það um langa hríð. Stofnféð var örlítill hluti eigin fjár í sparisjóðnum eins og oft hafði verið vakin athygli á. Í árslok 2002 var það ekki nema 0,24% af eigin fé sem þá nam tæpum 2,6 milljörðum kr. Stofnféð var tvöfaldað á árinu 2004 með því að allir stofnfjárhafar, að einum undanskildum, keyptu annað stofnfjárbréf. Í árslok 2004 var hlutur stofnfjár í eigin fé orðinn 0,48%. Eigið fé nam þá tæplega 3,1 milljarði kr. en stofnféð á endurmetnu nafnverði var aðeins 14,7 millj. kr. Miðað við að stofnfjárbréfin hafi verið 93 talsins hefur endurmetið stofnverð hvers bréfs numið 158 þús. kr. Það hefur nokkurn veginn verið verðið sem stofnfjáreigendur greiddu fyrir nýju bréfin. Í ljósi allrar yfirverðsumræðunnar var hægt að slá því fram að markaðsvirði hvers bréfs væri vart minna en 33 millj. kr., ef heildarfjölda bréfa væri deilt upp í eigið fé sparisjóðsins.

Mikill þrýstingur var á stjórn sparisjóðsins að koma á fót markaði með stofnfé í sparisjóðnum en stjórnin undir forustu Matthíasar Á. Mathiesen, sem hafði verið formaður samfellt frá 1958, var því algjörlega mótfallin. Stjórnarkjör hafði ekki farið fram í sparisjóðnum síðan árið 1941. Stjórnin hafði á hverjum tíma tilnefnt fulltrúa í stjórn, en tveir stjórnarmanna voru fulltrúar sveitarfélagsins. Þingmaðurinn Guðmundur Árni Stefánsson vísaði til þessa fyrirkomulags í umræðum á þingi þegar til meðferðar voru áðurnefndar breytingar á lögum um sparisjóði vorið 2001 og haustið 2002. Við flýtiafgreiðsluna á lögum nr. 4/2004 lagði hann fram breytingartillögu sem gekk út á að bætt yrði inn ákvæði um að öllum viðskiptamönnum sparisjóðsins skyldi boðin þátttaka í stofnfjáraukningunni að hluta. Guðmundur Árni sagði meðal annars við atkvæðagreiðslu um tillöguna sem felld var með 30 atkvæðum gegn 10:

„Herra forseti. Hér er lagt til að í samþykktum sparisjóða verði kveðið á um rétt viðskiptavina sparisjóða til að taka þátt í útboði á nýju stofnfé. Í ljósi breyttra þjóðfélagshátta og sterkra tengsla sparisjóðanna við starfssvæði sín tel ég nauðsynlegt að hverfa frá því að handvalið sé í flokk stofnfjáreigenda við útgáfu á nýju stofnfé.

Hér er með öðrum orðum lagt til að klúbbarnir verði opnaðir.“

Óánægja var farin að gerjast meðal stofnfjáreigenda Sparisjóðs Hafnarfjarðar og leiddi hún til þess að stjórnin var felld á aðalfundi sparisjóðsins sem haldinn var 20. apríl 2005. Mótframboðið sigraði með eins atkvæðis mun. Þetta vakti mikla athygli og fjölmiðlar töluðu um „hallarbyltingu“ í sparisjóðnum.

Strax kom upp sá kvittur að hallarbyltingin hefði verið gerð að undirlagi fjársterkra aðila sem vildu ná tangarhaldi á sparisjóðnum. Nokkrir voru nefndir í því sambandi. Það fylgdi sögunni að stofnfjáreigendum hefði verið lofað umtalsverðu fé ef þeir tækju þátt í að fella gömlu stjórnina og afsöluðu sér stofnbréfum sínum að því loknu. Fjárhæðin sem nefnd var í því sambandi var 46–50 millj. kr. fyrir hvern hlut, þ.e. fyrir tvö stofnfjárbréf. Guðmundur Árni Stefánsson kallaði þetta í blaðaviðtali „rán um hábjartan dag“ og sagði:

„Ég er ekki einn um að segja að mér svíði það að þessi stofnun verði græðginni að bráð. Það var aldrei hugmyndin með hópi ábyrgðarmanna, sem síðar breyttust í stofnfjáreigendur, að þeir væru að maka krókinn vegna áratugaviðskipta fjölmargra bæjarbúa í góðri trú. Að þeir notuðu eigið fé sjóðsins í eigin þágu!“

Á sama stað var vitnað í [þáverandi] bæjarstjórann í Hafnarfjarðarbæ, Lúðvík Geirsson:

„Bæjaryfirvöld og bæjarbúar eiga allir hagsmuna að gæta í þessu máli. Ég hef alltaf, og held ég að sá sé almannarómur, litið svo á að stofnunin sé eign bæjarbúa sjálfra en ekki einhverra sárafárra sem valdir hafa verið sem ábyrgðarmenn.““

Virðulegi forseti. Við jafnaðarmenn í Hafnarfirði höfum talað skýrum rómi í þessu máli allt frá síðustu öld. Við höfum viljað standa vörð um Sparisjóð Hafnarfjarðar sem var stofnaður árið 1904, er einn af burðarásunum í Hafnarfirði og samofinn sögu Hafnarfjarðar. Það er sorglegt til þess að vita hvernig fór og að ekki hafi verið hlustað á þau varnaðarorð sem sett voru fram við lagabreytinguna og ekki heldur þegar Sparisjóði Hafnarfjarðar var stolið um hábjartan dag, ekki einu sinni heldur líklega tvisvar.