143. löggjafarþing — 96. fundur,  11. apr. 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.

[15:58]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Eins og rakið er í rannsóknarskýrslunni eiga sparisjóðirnir sér langa sögu og tengsl við samfélög og mannlíf víða um land. Tilgangur sparisjóða var að þjóna nærsamfélagi sínu og gera það á öðrum forsendum en hefðbundnir viðskiptabankar. Eðli málsins samkvæmt sinntu sparisjóðir fyrst og fremst einstaklingum og smærri fyrirtækjum. Hagnaður sparisjóðanna átti síðan að verða eftir í heimabyggð, góðum málum til framdráttar.

Rekstrarform sparisjóðanna og tengsl þeirra við einstök byggðarlög gerðu þá að vinsælum fyrirtækjum. Sjóðirnir voru heimaprýði og unnu að almannahag. Viðhorf fólks til sparisjóðanna hafa á stundum verið rómantísk fremur en raunsæ, ef svo má að orði komast. Eftir fall bankanna haustið 2008 varð það mörgum áfall að uppgötva að rekstur margra sparisjóða var síst betri en bankanna. Mörgum sparisjóða varð ekki bjargað og aðrir þurftu ríkulega aðstoð ríkissjóðs. Það þarf því ekki að koma á óvart að þegar rannsóknarskýrslan um fall bankanna lá fyrir var almennur þrýstingur í samfélaginu og breiður stuðningur á Alþingi við að sparisjóðirnir yrðu einnig rannsakaðir.

Ég tek undir orð hv. þm. Vilhjálms Bjarnasonar og stend með því að þessar rannsóknir hafi farið fram. Ég tel þær nauðsynlegar á leið samfélagsins út úr hruninu. Kostnaður af svona rannsóknum á að sæta aðhaldi eins og öll önnur útgjöld ríkissjóðs, en rétt er að benda á að kostnaðurinn af rannsóknum á bankahruninu nemur um 0,1% af því tjóni sem hrunið olli ríkissjóði og þar með okkur, borgurum þessa lands.

Í rannsóknarskýrslunni kemur fram að allt frá árinu 1999 hafi verið tap á hefðbundnum kjarnarekstri sparisjóðanna en þensla bóluáranna taldi mönnum trú um að reksturinn væri í lagi. Exista var tímabundinn bjargvættur sparisjóðanna en einnig myllusteinn um háls þeirra.

Í skýrslunni er rakin svipuð saga og varðaði bankana þrjá. Markmiðið var að vaxa hratt, ná sér í erlent fjármagn og stunda áhættusöm útlán. Gróðinn var mikill um tíma og græðgin taumlaus. Arðgreiðslur sumra sparisjóða segja sína sögu um það hugarfar sem hér réð ríkjum. Arðgreiðslur voru stundum meiri en hagnaður.

Svo var sérstakt ráðgjafarfyrirtæki á vegum sparisjóðanna sem leitaði að verkefnum til að fjárfesta í eða lána til og það fé er nú að mestu tapað. Vildarvinir fengu meira en aðrir og lánað var gegn ónógum veðum. Í stuttu máli má segja, og það er það sem ég hef náð að kynna mér af þessari ítarlegu skýrslu á þessum mjög svo stutta tíma, að meginlærdómurinn sé sá að vanda þurfi betur lagasetningu frá Alþingi, að hlutafélagavæðing sparisjóða hafi ekki verið nægilega vönduð og undirbúin. Hún var, eins og segir í skýrslunni, góð fyrir eigendur stofnfjárbréfa en ekki sparisjóðina sjálfa. Svo höfum við líka enn eina ferðina fengið frekari staðfestingu á því að standa þurfi vörð um bankaeftirlit. Í því samhengi væri kannski gott að hætta í þingsal endurteknum kvörtunum um eftirlitsiðnaðinn og skaðsemi hans.

Það er líka rétt að geta þess, frú forseti, að það er ein rannsókn eftir sem Alþingi er búið að samþykkja, rannsókn á einkavæðingu bankanna. Hún ætti að standa þeim þingmönnum nærri sem tala um vandaðri vinnubrögð þingsins því að þar er dæmi um mjög óvönduð vinnubrögð þingsins og framkvæmdarvald sem brást fullkomlega trúnaði bæði þingsins og almennings á Íslandi. Ég vona að í forsætisnefnd sé verið að ræða með hvaða hætti eigi að fara að vilja þingsins og fara í þá rannsókn því að grundvöllur að lýðræðissamfélagi er að fólk fái skýringar á því þegar þeim sem er falið sem kjörnum fulltrúum að fara með löggjafar-, fjárveitinga- og eftirlitsvald getur orðið svo alvarlega á í messunni.

Það var merkilegt að eftir hið mikla hrun opnaðist tímabundið fyrir hugmyndir um endurskoðun og endurmat. Mér hefur á síðustu vikum og dögum gefist tækifæri til að ferðast aftur til hruntímans vegna þess að ég hélt opinberan fyrirlestur um hrunið og rifjaði upp atburðarásina. Það var merkilegt ferðalag. Þarna opnuðust ákveðnar gáttir og það var talað um að nú væri mikilvægt að kalla konur til. Konan var kölluð til, hún varð forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, konur urðu bankastjórar, konum fjölgaði á Alþingi og í ýmsum stjórnum. Nú er hins vegar minna talað um það. Það er eins og fennt hafi yfir það í kappi ýmissa karla um að endurrita söguna og hafa áhrif á það hvernig sagan er túlkuð. Það er eins og fennt hafi yfir það á þeim átakatímum sem hafa staðið yfir þegar keppst er um vald og auð og valdið til að úthluta auði. Þá gleymdust kerlingarnar.

Þingmannanefndin sem fór yfir rannsóknarskýrslu Alþingis lét kynjagreina skýrsluna og ég rifjaði það líka upp í þessari vinnu minni. Þar er talað um að breytingar á húsnæðiskerfinu í aðdraganda hrunsins hafi verið mjög kynjaðar þar sem dregið hafi verið úr möguleikum til félagslegs húsnæðis sem auðvitað kemur konum vel sem sjá margar einar fyrir heimili á lágum tekjum. Líka var bent á að framkvæmdir vegna Kárahnjúkavirkjunar hefðu verið mjög kynjaðar. Það var lítið atvinnuleysi karla á Austurlandi en mikið atvinnuleysi kvenna. Aðgerðirnar miðuðu að atvinnusköpun fyrir karla, bæði á framkvæmdastigi og eftir að verksmiðjan var risin, auk þess sem andstaða kvenna var meiri á Austurlandi við þessar framkvæmdir en karla.

Enn fremur var bent á að skattalækkunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar hefðu verið kynjaðar. Þær hefðu hentað betur körlum með tiltölulega háar tekjur en þeim fjölmennu lágtekjuhópum kvenna sem reiða sig meira á tilfærslur frá hinu opinbera sem og opinbera þjónustu.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var með ýmsar áherslur og ég ætla ekki að fara yfir þær núna. Hvað blasir hins vegar við okkur nú þegar búið er að leggja fram frumvarp um spilavíti þar sem spennufíkn og græðgi eru í skurðpunkti? Það er svolítið kaldhæðnislegt að það gerist á þessum tímum. Við erum að skera niður samkeppnissjóði, leggja áherslu á Sundabraut í staðinn fyrir spítala, spilavíti en ekki Hús íslenskra fræða og skattalækkanir þegar heilbrigðiskerfið og menntakerfið sárvantar fjármuni. Gömlu karlarnir eru búnir að senda ungu strákana inn í stjórnmálin og eldri karlar fá að spreyta sig í bankakerfinu eftir að ungu körlunum mislukkaðist þar.

Frú forseti. Ég biðst velvirðingar á að hafa farið út fyrir efni skýrslunnar en mér finnst ágætt að rifja upp hvar við erum á vegi stödd í úrvinnslu hrunsins. Því miður er ég ekki sátt við þá mynd sem blasir við. Hún er ekki í anda þeirra áherslna sem jafnaðarmenn standa fyrir. Ég vil því höfða til frjálsra kvenna og frjálsra karla sem eru laus undan oki gömlu valdaklíkanna og láta ekki stjórna sér, til að taka höndum saman um það að koma Íslandi aftur inn á braut endurskoðunar og endurmats þannig að við reynum að byggja hér upp samfélag sem er lífvænlegt til lengri tíma. Miðað við þá stefnu sem nú er lagt upp með af hinni ungu ríkisstjórn, yngstu ríkisstjórn lýðveldissögunnar, kaldhæðnislegt sem það hljómar, erum við ekki á réttri braut.

Ég hefði viljað fá betra tækifæri til að kynna mér skýrsluna, frú forseti, áður en þessi umræða hefði farið fram. Þó að rökin hafi verið að þetta hafi alltaf verið gert með fyrri rannsóknarskýrslur er kannski tími til kominn að við hættum að gera endilega hlutina eins og þeir hafa alltaf verið gerðir. Það væri ágæt byrjun.