143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

stuðningur við dæmda menn erlendis utan fangelsis.

384. mál
[16:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þann góða skilning sem hann sýnir á þessu máli. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra að þetta eru örfá tilvik. Þau komu eigi að síður í minni tíð nógu oft upp til þess að ég kaus að fara með málið inn í ríkisstjórn til að benda á þetta. Þar var á sínum tíma samþykkt tillaga frá mér um að innanríkisráðuneytið mundi skoða málefni þessara fanga með tilliti til þess að þá voru málefni sveitarfélaga undir því.

Það er líka rétt, sem hæstv. ráðherra segir, að það er líklegt að svona staða komi upp aftur. Ég tel að gott stjórnvald sé það sem gleymi ekki þeim sem enginn hugsar um. Í þessu tilviki hugsa ég að það sýni gott hjartalag stjórnvalds að sjá svo um og búa þannig um bagga að ef slík staða kemur upp séu einhver úrræði. Ég hef nefnilega lent í því nákvæmlega, eins og hæstv. ráðherra bendir á, að það er enginn fjárlagaliður sem að minnsta kosti utanríkisráðherra hefur heimild til að sækja í til að styrkja menn sem um skemmri eða lengri tíma fá að komast úr fangelsi en eru í farbanni í sínu landi.

Það er alveg rétt hjá honum að þetta er fyrst og fremst í Suður-Ameríku. Ég hef sjálfur heimsótt íslenskan fanga í slíku fangelsi sem er ráðið af glæpaklíkum. Í því tilviki var það bara miskunnsamur samverji í landinu sem tók hann upp á sinn eyk þegar hann komst út og ól önn fyrir honum í hálft ár, hafði engin tengsl við Ísland nema persónuleg vinatengsl við tvo eða þrjá menn. En í svona tilvikum er það bara af því að miskunn guðs lýstur jörðina og viðkomandi menn en við verðum að gera ráð fyrir því að hún sé ekki alltaf til staðar. Þess vegna er ég þakklátur hæstv. ráðherra fyrir að taka undir með að það er nauðsynlegt að skoða þetta og ég held að við eigum að búa til einhvers konar björgunarhringi þar sem hæstv. ráðherra eða ríkisstjórn getur gripið til fjárlagaliðar. Þetta eru örfá tilvik, þetta eru smáupphæðir en geta varðað líf eða dauða hjá einstaklingnum.