143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

tilskipun um varðveislu fjarskiptaupplýsinga.

551. mál
[17:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Úrskurður Evrópudómstólsins gekk út á að þessi tilskipun gengi of langt. Þá er spurningin: Hvað má hún ganga langt? Það var dálítið opið. Ég held að það þurfi að skoða þessi mál öll, sérstaklega fjarskiptalögin, fara í gegnum þau og skilgreina nákvæmlega hvað fjarskiptafyrirtæki mega geyma og hversu lengi.

Upplýsingar sem komu frá Snowden fyrir ári segja okkur að gífurleg gagnasöfnun er í gangi. Hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur flutt þingsályktunartillögu um að skora á utanríkisráðherra að standa fyrir gerð rafrænna mannréttinda, ef kalla má það svo, þ.e. að standa fyrir gerð alþjóðasáttmála sem gengur út á að verja einstaklinginn fyrir því að gögn um hann séu geymd, gögn um allt og ekkert. Það er nánast takmarkalaust sem menn safna af gögnum í dag og það þarf að fara að stöðva það.

Ég er mjög ánægður með yfirlýsingu ráðherrans áðan um að hann ætli að kanna nákvæmlega fjarskiptalögin og annað slíkt. Ég vil að það standi nákvæmlega í fjarskiptalögunum hversu lengi og hvað megi geyma og það sé farið eftir því að viðlagðri refsingu.