143. löggjafarþing — 98. fundur,  28. apr. 2014.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

565. mál
[17:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður eyðir ekki miklum tíma í efnislega umræðu um þá tillögu sem hér er á borðinu eða um hvort það er mikilvægt eða ekki mikilvægt að innleiða hana hér, hvort við eigum að bregðast við eða ekki, heldur er hv. þingmaður í þeim gamla leik að velta einstaklingum eða einstökum þingmönnum upp úr svaðinu með einhverjum hætti. Ég ætla ekki að fara í þann leik við hv. þingmann. Það eru nógu margir sem láta fallast í þá gryfju eða í þá stíu, eða hvernig við orðum það.

Þetta snýst um það hvernig við ætlum að bregðast við gerð eða reglugerð eða hvað við köllum þetta, frá Evrópusambandinu sem lýtur að því að íslenskir flugrekendur og aðrir sitji við sama borð. Þetta snýr að því að við erum að fresta ákveðnum atriðum, ekki síst vegna þess að verið er að leita eftir slíkum samþykktum hjá Alþjóðaflugmálastofnuninni.