143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er eilífðarverkefni fyrir okkur að nýta opinbera fjármuni sem allra best. Liður í því var þegar ég fór fram á það að hv. fjárlaganefnd kallaði til Ríkiskaup á fund sinn, sem haldinn var síðasta mánudag. Þar komu fram upplýsingar sem ég held að eigi erindi við þingheim allan og reyndar þjóðina. Það er einfaldlega svo að opinber innkaup eru 25% af ríkisútgjöldum, um 150 milljarðar kr.

Nú hafa bæði rammasamningar og útboð sýnt og sannað að þau eru skynsamleg fyrir hönd skattgreiðenda. Þannig hafa fjármunir nýst betur og einnig verið meira jafnræði á milli þeirra sem selja opinbera þjónustu. Svo að við tökum eitt lítið dæmi þá er allt að því 45% verðmunur á milli tölvukaupa á milli stofnana hjá ríkinu, sama aðilanum. Það fer allt eftir því hvort menn nýti sér þessa þjónustu eða ekki. Þetta væri allt saman í góðu lagi ef sameiginleg innkaup væru ekki einungis 30% af öllum innkaupum. Við erum ekki að nota það fyrirkomulag sem var sett gagngert upp til að ná betri nýtingu fjármuna, auknu jafnræði á milli aðila. Það er skýrt að koma þarf með betri skilaboð, m.a. frá Alþingi, og sömuleiðis betri fræðslu milli þeirra aðila sem stýra stofnunum hins opinbera. Ég hvet til þess að það verði gert.