143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

svar við fyrirspurn.

[14:16]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hér hljóðs til þess að taka undir með hv. þm. Kristjáni Möller. Það er náttúrlega algjörlega óviðunandi að í rúmlega hálft ár hafi ekki fengist upplýsingar um auðlindagjöldin eftir sveitarfélögum, sem eru sjálfsagðar upplýsingar fyrir þingmenn svo þeir geti haft þær við umfjöllun um veiðigjöldin. Þegar flestallir hv. þingmenn, að minnsta kosti við í Samfylkingunni, hafa greitt fyrir því að taka hér veiðigjöldin á dagskrá og vilja greiða fyrir umfjöllun um þau þá legg ég ríka áherslu á að hæstv. ráðherra standi skil á þessum upplýsingum. Ég inni hæstv. ráðherra líka eftir fyrirspurn sem ég beindi til hans og hann átti að svara fyrir liðlega mánuði síðan um verðlagningu á milli útgerðar og vinnslu, sem getur skipt miklu máli í veiðigjaldaspurningunum.

Nú er kominn mánuður fram yfir það að ráðherrann hefði átt að svara og hann er með úrskurð Samkeppnisstofnunar sem hann þarf að bregðast við. Það er mikilvægt að þingið fái upplýsingar um það með hvaða hætti ráðherrann ætlar að bregðast við þeim úrskurði. Það getur auðvitað haft áhrif á ýmsa þá þætti sem lúta að veiðigjöldunum. Ég inni hæstv. ráðherra eftir því hvort ekki sé tryggt að þeirri fyrirspurn verði líka svarað hið fyrsta.