143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[15:29]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður brást við ummælum mínum um virðisaukaskattskerfið og lýsingum á því og sagði svo réttilega: Já, þetta er gert til þess að afla ríkinu tekna.

Það er alveg hárrétt. Er þetta þá ekki svipað sem verið er að gera hér með veiðigjöldum? Jú, Alþingi er að setja lög um að greiða skuli keisaranum eins og honum ber. Svo eru skiptar skoðanir um hvað það er. Hv. þingmaður talaði um að mörgum finnist virðisaukaskatturinn orðinn of hár, að prósentan sem lögð er á sé of há. Það má alveg til sanns vegar færa, að það sé rétt sem sumir segja um veiðigjöldin. Ég get ekki enn tjáð mig um það hvort þau eru of há eða of lág, en þetta er það skipulag og stjórn sem við höfum haft á. Ég vil frekar á þessum tíu sekúndum segja að ég held að þetta sé bara eins og gengur og gerist í öllum nútímalegum lýðræðisríkjum og er búið að gera mjög lengi og við förum ekki til Sovétríkjanna vegna þess að ég held að þetta hafi ekki verið gert (Forseti hringir.) á lýðræðislegan hátt á sínum tíma.