143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[16:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er einn þáttur enn sem menn þurfa að hafa í huga þegar þeir velta fyrir sér álagningu eða gjaldaandlagi, hvort það er fyrir hvert og eitt fyrirtæki, sem það hlýtur að vera ef menn ætla að færa þetta yfir í form einhvers konar viðbótartekjuskatts. Þá kemur upp vel þekktur vandi og hann er sá að betur reknu fyrirtækjunum er í reynd refsað og þau greiða allt gjaldið en hin sleppa. Það bætist við gullhúðunarvandann, sem menn þekkja í þessum fræðum. Þess vegna var í lögunum, eins og þau eru, valin sú leið að reyna að nálgast þetta út frá meðaltalsafkomu. Þá njóta vel rekin fyrirtæki þess, ef þau eru yfir ofan meðaltalið, að gjaldið er þó léttara hlutfallslega. Hin hafa hvata til þess að reyna að komast þangað. Slík gjaldtaka er þess eðlis að huga þarf líka að þáttum eins og þessum.

Ég nefndi uppboðsleiðina í ergelsi mínu yfir því hvernig umræðan er, mér finnst þetta vera endurtekið efni eina umferðina enn. Já, því miður hefur heldur slaknað afkoman í greininni og horfurnar eru ekki eins glæsilegar og þær voru þegar við bjuggum við þessi gríðarlega góðu skilyrði, t.d. árin 2011 og 2012, en þær eru langt frá því að vera vondar í sögulegu samhengi. En þá er söngurinn byrjaður. Og hér tala menn, meira að segja á þingi, eins og að þetta sé allt að fara á vonarvöl. Það er ekki þannig. Það er ágætisafkoma í sögulegu samhengi séð í íslenskum sjávarútvegi í dag, ég fullyrði það. En umræðan er svona.

Er þá lausnin sú, ef menn komast ekki að neinni niðurstöðu í þrætunni um hvað séu hófleg gjöld, að leita til markaðarins að einhverju leyti? Ég hef sagt: Ég hef nálgast það frekar en fjarlægst það, þó að ég hafi aldrei verið sérstakur talsmaður þess. Ég hef verið tilbúinn til að opna á leiðir, eins og hv. þingmaður veit, til að láta markaðinn að einhverju leyti leysa málin og senda okkur (Forseti hringir.) skilaboð um raunveruleg verðmæti, t.d. með myndarlegum leigumarkaði til hliðar við kerfið. (Forseti hringir.) Þá fengjum við ákveðnar vísbendingar um það. Þannig að ég er opinn (Forseti hringir.) fyrir því að skoða a.m.k. einhverjar blöndur af því tagi.