143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[17:49]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég svara spurningu hans játandi, hiklaust svara ég henni játandi. Að sjálfsögðu snýst þetta ekki eingöngu um arðinn heldur það hvernig við meðhöndlum auðlindina og hvaða markmiðum við náum með skynsamlegum reglum og nýtingu á henni. En þegar verið er að veita sérleyfi til atvinnurekstrar og þar af leiðandi hagnaðar verðum við að tryggja að ekki sé verið að gefa óeðlilegan afslátt af þeim verðmætum sem þar eru.

Ég nefndi jafnframt, ef við komum til dæmis að fiskveiðiauðlindinni, að auðvitað þurfum við að tryggja að það séu rannsóknir og nýsköpun í greininni, þar er aðkoma ríkisins mjög mikilvæg. Við þurfum að tryggja að byggðarlög eigi ekki á hættu að leggjast í eyði á einni nóttu vegna markaðslögmála. Slíkt væri óviðunandi og mundi aldrei nást sátt um. Það eru mörg markmið sem við getum viljað ná.

En svo eru ákveðnar auðlindir sem við nýtum sameiginlega með mjög beinum hætti eins og ef við hugsum um heita vatnið sem við nýtum í sundlaugar á niðurgreiddu verði af því að við teljum auðlindina með þeim hætti geta gagnast lýðheilsu, geta aukið jöfnuð í möguleika okkar til að njóta hreina loftsins og heita vatnsins. Þar er ekki markaðssjónarmið að leiðarljósi. Þar erum við líka að nýta auðlindina í mjög beinni almannaþágu. Ég er hér síst að tala fyrir eingöngu markaðslausnum (Forseti hringir.) en ég er að tala gegn pilsfaldakapítalisma í úthlutun sérleyfa og verðlagningu þeirra.