143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[22:38]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé ástæða fyrir því að þetta auðlindaákvæði hefur verið jafn umdeilt og raun ber vitni þegar breytingar á stjórnarskránni eða umræða um breytingar á stjórnarskrá, það er víst réttara að segja, er skoðuð nokkur ár aftur í tímann, þarna mætast auðvitað pólitísk sjónarmið. Þó hefur mér þótt það mjög mikill ávinningur að fulltrúar allra stjórnmálaflokka hafa á undanförnum árum lýst því yfir að mikilvægt sé að hafa einhvers konar auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Síðan liggur eftir að ákveða hvernig það eigi nákvæmlega að vera. Ég er alveg sammála hv. þingmanni sem segir að mikilvægt sé að slíkt ákvæði taki ekki eingöngu til sjávarauðlindarinnar heldur snúist um allar auðlindir sem við eigum, að það sé almenn regla.

Ég held að það sé líka rétt hjá hv. þingmanni að eitt sé að setja slíkt ákvæði í stjórnarskrá en svo þarf væntanlega að útfæra það í lögum og síðan þarf væntanlega að koma dómaframkvæmd sem stýrir betur túlkun slíks ákvæðis. Þó held ég að það gæti verið mjög mikilvægt að fá slíkt ákvæði í stjórnarskrá hvað varðar öll lög sem sett verða í kjölfarið, það breytir á einhvern hátt sýn okkar á auðlindirnar.

Mig langar þá að spyrja hv. þingamann hverjar hún metur líkurnar á því að við náum einhverri sátt um slíkt ákvæði. Það eru ákveðin tækifæri til þess að breyta stjórnarskrá eins og fyrir liggur. Hv. þingmaður þekkir þau mál alveg sérdeilis vel. Metur hún að það séu líkur á að við náum einhverri sátt um slíkt auðlindaákvæði inn í stjórnarskrá í næstu lotu stjórnarskrárbreytinga?