143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

lækkun væntingavísitölu.

[15:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er merkilegt að hæstv. forsætisráðherra haldi að það að taka til umræðu viðfangsefni stjórnmálanna, það að ég sem hv. þingmaður leyfi mér að taka til umræðu helstu viðfangsefni stjórnmálanna, jöfnuð og ójöfnuð, hafi þau áhrif að væntingavísitala tekjulægsta hópsins hrapi. Mér fannst hæstv. forsætisráðherra gefa það í skyn hér að það væru ræður eins og þær sem ég flutti hér áðan, tveggja mínútna ræða þar sem ég spyr hæstv. forsætisráðherra afar kurteislega hvaða markmið hann hefur um að auka jöfnuð í samfélaginu, og það að leyfa sér að hafa skoðun á málum og ræða málin, sem verði til þess að væntingavísitalan hrapi. Þetta finnst mér ekki trúverðugur málflutningur.

Ég verð þá að segja það sem hæstv. forsætisráðherra kom ekki að í svari sínu að vissulega er það rétt að margt sem síðasta ríkisstjórn gerði varð til þess að auka jöfnuð. Að sjálfsögðu vonumst við til þess að sú þróun haldi áfram. Ég hef þó áhyggjur af því að þær breytingar sem hafa verið boðaðar, ég nefni bara niðurfellingu á auðlegðarskatti sem dæmi, gætu orðið til þess að ójöfnuður ykist á nýjan leik (Forseti hringir.) eins og hann gerði í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, síðast þegar þeir flokkar voru saman í ríkisstjórn. Það sem gerðist þá var einmitt að ójöfnuður jókst(Forseti hringir.) … eins og allar tölur sýna.