143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

lokun fiskvinnslunnar Vísis á Húsavík og Djúpavogi.

[15:23]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég ítreka fyrra svar í þá veru að stjórnmálamenn segja ekki fólki um allt land við hvað það eigi að vinna, menn senda ekki frá sér tilskipanir um það hver eigi að vera lausnin á hverjum stað, heldur ræða við þá sem best þekkja til, þá sem búa á stöðunum og hafa verið kosnir til að vera í forsvari fyrir sveitarfélögin [Háreysti í þingsal.] og leysa þannig hlutina með því fólki. Hins vegar er þetta ákaflega mikilvæg áminning um mikilvægi þess að þau lög og þær reglur sem stjórnmálamenn setja séu ekki til þess fallin að setja neikvæða hvata, jafnvel hættulega. Þess vegna er svo mikilvægt að menn hverfi af þeirri braut sem síðasta ríkisstjórn lagði upp með, að skattleggja sjávarútveginn á þann hátt að það ýti undir og nánast krefjist samþjöppunar (Gripið fram í.) í greininni. Hvernig væri staðan ef ráðist hefði verið í veiðileyfagjald upp á 23–24 milljarða eins og síðasta ríkisstjórn boðaði? Þá væru menn ekki að velta fyrir sér stöðunni á tveimur stöðum, heldur stöðunni um allt land. (Gripið fram í: Ósvífni.) Sem betur fer erum við enn í aðstöðu til þess að bregðast við vandanum á þessum tveimur stöðum vegna þess að kerfið er enn (Forseti hringir.) til þess fallið (Gripið fram í.) að leysa þessa stöðu. Það var komið í veg fyrir allsherjarhrun með því að koma í veg fyrir stefnu síðustu (Gripið fram í.)ríkisstjórnar. (SJS: Er þetta það eina sem þú hefur að segja við fólkið á þessum stöðum?)