143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

Seðlabanki Íslands.

524. mál
[16:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Undir lok síðasta árs var gengið frá því milli ríkissjóðs og Seðlabankans að vinna að nánari útfærslu á skilmálum þess skuldabréfs sem rann út í lok ársins 2013. Það er rétt sem hér er rakið, í fjárlögum yfirstandandi árs var ekki gert ráð fyrir að það kæmi til vaxtagreiðslu af því skuldabréfi. Í umræðu um það mál á sínum tíma lét ég þess getið að ég teldi óeðlilegt að á sama tíma og eigið fé Seðlabankans hefði styrkst jafn mikið og raun ber vitni á undanförnum árum hefði ríkissjóður þessa miklu vaxtabyrði af skuldabréfinu.

Nú er lokið vinnu við að uppfæra eiginfjárviðmið fyrir Seðlabankann. Samhliða því hefur verið gengið frá endurgerð skilmála skuldabréfsins. Það felur í sér að vextir verða reiknaðir á það skuldabréf sem liggur í Seðlabankanum útgefið af ríkissjóði, þ.e. skuldabréfið hefur þá verið endurútgefið með óverðtryggðum vöxtum, og þannig munu falla til vaxtagreiðslur á þessu ári ólíkt því sem gert var ráð fyrir í fjárlögunum. Á móti kemur einskiptisgreiðsla til ríkissjóðs og heildaráhrifin af þessu hvoru tveggja eru að greiðslunum er öllum ráðstafað til lækkunar á skuldabréfinu sjálfu og mun þannig vaxtabyrðin lækka um rúman 1 milljarð eins og ég rakti í mínu máli. (Forseti hringir.) Ég vona að þetta svari fyrirspurninni.