143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[12:13]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þarna fann hv. þingmaður eitt atriði sem við erum sammála um, þ.e. að það beri að ræða svolítið að sameina nokkur sveitarfélög, það er svo sem ágætt að við séum á sömu blaðsíðunni þar.

Varðandi þá umræðu um að leggja ríkislögreglustjóra niður og færa verkefni hans til lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins lýsi ég því enn og aftur yfir að við hv. þingmaður erum algjörlega ósammála um það atriði. Ég tel að þegar við erum komin með átta sterk lögregluumdæmi muni það einfaldlega sýna sig hversu nauðsynlegt það er fyrir okkur að vera með aðila sem gætir að samræmingarhlutverkinu með þessum öflugu stofnunum. Þess vegna er mikilvægt að ríkislögreglustjóri verði sterkur og starfi áfram.

Hv. þingmaður spurði sérstaklega út í Lögregluskólann. Það er draumur íslenskra lögreglumanna að nám þeirra komist á háskólastig. Það er stór draumur en ég held að þróunin verði í þá átt. Það mun auðvitað taka tíma en það er skoðun mín, svo að ég tali bara fyrir mig, að tímabært sé að færa yfirstjórn skólans undir embætti ríkislögreglustjóra sem mundi síðan útvista því verkefni til starfandi skóla. Það er fyrsta skrefið. Við eigum auðvitað að gera ríkar menntunarkröfur. Lögreglumenn og þeir einstaklingar sem vilja sækja sér þá menntun eiga náttúrlega að gera þá kröfu að námið sé þannig uppbyggt að þeir geti fengið það metið inn í annað nám og þetta sé sambærilegt og gefi einhver réttindi (Forseti hringir.) í menntakerfinu sjálfu. En hvort skrefið verði stigið (Forseti hringir.) nægjanlega langt, það mun framtíðin bera í skauti sér.