143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[12:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir margt sem kom fram í ræðu hv. þingmanns, einkum þegar kemur að heimildinni til þess að halda greiningardeildir. Það gleður mig að aldrei hafi verið talin þörf á því að stofna þessar greiningardeildir, en svo gleður mig sérstaklega að það sé að frumkvæði stjórnarinnar sem þessi heimild er tekin burt þegar ljóst er að hennar er ekki þörf. Það gleður mig mjög mikið og mér finnst mjög gott að sjá það.

Í sambandi við það, eins og hv. þingmaður nefndi og kom inn á, er mjög mikilvægt að við séum öll mjög meðvituð um hvernig farið er með upplýsingar um borgara landsins á upplýsingaöld. Eðli málsins samkvæmt þegar við fjöllum um lögreglulög þurfum við að skoða það mjög vel og það er kannski helst vegna þess að í þessum málaflokki eru lögmætar ástæður fyrir því að safna persónugögnum og skoða þau o.s.frv. og því afar mikilvægt að við séum mjög meðvituð um hvað við erum að gera.

Mig langaði að inna hv. þingmann eftir hans skoðun á einu sem kemur fram í umsögn Persónuverndar um þetta mál. Þar eru tveir punktar lagðir fram sem varða þá þætti frumvarpsins, þ.e. t.d. 8. gr. 251. máls, en þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Engan má skipa, setja eða ráða til starfa hjá lögreglu sem hefur gerst sekur um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti eða sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem starfsmenn lögreglu verða almennt að njóta. Til þess að staðreyna þetta er lögreglu heimilt að afla upplýsinga úr sakaskrá og málaskrám lögreglu.“

Virðulegi forseti. Nú er tíma mínum því miður lokið. Ég tel persónulega að hér sé heimildin lögmæt vegna þess að um er að ræða lögregluna, (Forseti hringir.) og það er mjög mikilvægt að þar séu öryggismálin í lagi. (Forseti hringir.) En ég vil spyrja hv. þingmann út í sjónarmið hans og kem kannski aðeins meira inn á málið í seinna andsvari.