143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[15:31]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessar spurningar. Eins og ég sagði áðan skilaði Landssamband lögreglumanna umsögn við frumvarpið síðast þegar það var lagt fram og margt hefur breyst síðan þá. Landssambandið bendir réttilega á að ekki hefur farið fram nógu mikil greining á því hvernig tókst til síðast. Síðast voru stærstu mistökin þau að ekki var gert ráð fyrir því að sameiningin kostaði eitthvað, að hún kostaði fjármuni. Hagræðingin kom ekki fram á fyrsta ári. Að sjálfsögðu bitnar það á kjörum lögreglumanna. Landssamband lögreglumanna er stéttarfélag. Það þarf að standa vörð um kjör sinna manna. Þegar lögregluembættin þurftu að draga saman út af sameiningunni kom það niður á kjörum lögreglumanna.

Þær breytingar hafa orðið á þessu frumvarpi, þó að vissulega séu ekki settir beinir fjármunir í það, einhverjir fjármunir sparast við yfirstjórn o.fl., að það er viðurkennt að það kostar að sameina; hagræðingin er ekki fjárhagsleg, hagræðingin snýst um að efla löggæsluna.

Varðandi skipun lögreglumanna, sem landssambandið hefur gert miklar athugasemdir við, hefur það lengi lagt áherslu á svokallaða hæfnisnefnd til að gera ferlið gagnsætt og sanngjarnara. Það er það sem við erum að bæta inn í í þessu frumvarpi, allsherjar- og menntamálanefnd, það er að setja af stað hæfnisnefnd eins og Landssamband lögreglumanna hefur verið að kalla eftir lengi. Þannig að við förum að þeirra kröfu varðandi skipunina. Ég býst við að landssambandið sé mjög ánægt með þær breytingar hjá okkur.

Áhyggjurnar hafa líka verið þær hjá lögreglumönnum að alltaf sé verið að gera breytingar. Þess vegna lagði ég svo ríka áherslu á það í nefndinni að við færum ekki að tala um frekari sameiningar þegar við værum búin að sameina þetta, heldur (Forseti hringir.) að klára þetta dæmi.