143. löggjafarþing — 103. fundur,  6. maí 2014.

tillögur verkefnisstjórnar í húsnæðismálum.

[13:40]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í morgun bárust fregnir af því að verkefnisstjórn um húsnæðismál hefði skilað af sér og tillögur hennar hefðu verið kynntar og ræddar í ríkisstjórn í morgun. Ég fagna því sérstaklega, við höfum lengi beðið eftir niðurstöðu þessarar miklu vinnu. Við í Samfylkingunni lögðum fram í haust þingsályktunartillögu um bráðaaðgerðir á leigumarkaði til að bregðast við því hörmungarástandi sem þar ríkir og þegar við höfum rekið á eftir samþykkt þeirrar tillögu hér í vetur hefur einatt verið vísað til þess að vinna væri í gangi. Þess vegna er það vonum seinna að við sjáum nú loksins niðurstöðuna birtast.

Það er líka þannig að ríkisstjórnin hefur í vetur vísað hverju einasta álitamáli sem upp hefur komið á sviði húsnæðismála til þessarar verkefnisstjórnar og ber þar sérstaklega að nefna afnám verðtryggingarinnar.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort ríkisstjórnin hafi á grundvelli þeirra upplýsinga sem nú liggja fyrir og þeirra tillagna sem nú liggja fyrir tekið ákvarðanir í húsnæðismálum sem er löngu tímabært að teknar verði.

Hefur ríkisstjórnin ákveðið að hækka húsaleigubætur, færa þær nær vaxtabótum og búa til eitt kerfi húsnæðisbóta? Getum við treyst því að húsaleigubætur hækki? Er búið að ákveða í ríkisstjórn að gefa húsnæðissamvinnufélögum og lokuðum leigufélögum skuldalækkun með sama hætti og einstaklingum mun bjóðast samkvæmt þeim frumvörpum sem ríkisstjórnin hefur nú þegar lagt fram um leiðréttingu húsnæðislána?

Við vitum að margt fátækasta fólk landsins leigir af lokuðum leigufélögum og það er tryggt að ef skuldastaða þeirra félaga verður lækkuð lækkar leiga þessa fólks. Mun þetta fólk njóta sama réttar og þeir sem eru svo heppnir að eiga sitt eigið húsnæði?

Í þriðja lagi: Er búið að útfæra afnám verðtryggingarinnar og mun ríkisstjórnin tilkynna ný skref í framhaldi þessarar vinnu í því efni?