143. löggjafarþing — 103. fundur,  6. maí 2014.

ríkisfjármál.

[13:47]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Mér er eins og öðrum annt um stöðu ríkisfjármála og að við meðferð ríkisfjármála ríki sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki og festa, svo ég vísi í lykilorð úr fyrirliggjandi frumvarpi um opinber fjármál sem lagt hefur verið fram í þinginu.

Það eru margs konar óvissuþættir í ríkisfjármálum, ekki síst á komandi árum og þarf ekki annað en lesa áætlanir sem liggja til grundvallar samþykktu fjárlagafrumvarpi til að sjá að brugðið getur til beggja vona. Við höfum til dæmis rætt afkomutölur í sjávarútvegi og hvernig þær hafa áhrif á tekjustofna eins og veiðileyfagjöld. Stórir tekjuliðir eins og bankaskattur geta snarminnkað á einu augabragði ef bú gömlu bankanna eru gerð upp og hætta að vera tekjustofn. Síðan eru það vextir af lánum hins opinbera, ríkissjóður er ofurskuldsettur. Það er breyta sem haft getur mikil áhrif á útgjöld ríkisins.

Íbúðalánasjóður hefur aldeilis verið fjárfrekur á undanförnum árum og nú liggur fyrir álit frá stjórn Íbúðalánasjóðs vegna áætlana um niðurfellingu skulda heimila um að uppgreiðslur á lánum geti kostað sjóðinn allt frá 7,5 milljörðum til 24 milljarða. Sjóðurinn getur ekki fjármagnað það tap og þyrfti þar væntanlega að koma til aðstoð ríkisins, þannig að ýmislegt getur gerst. En nú erum við að fara að ræða og væntanlega samþykkja hér skuldaniðurfellingartillögur ríkisstjórnarinnar sem kosta að minnsta kosti 20 milljarða á ári og síðan er líka kostnaður vegna skatta sem skila sér ekki.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra sams konar spurningar og ég hef spurt hæstv. fjármálaráðherra: Er það svo að í allri þessari óvissu og ólgu í ríkisfjármálum (Forseti hringir.) muni þessi útgjaldaliður njóta algers forgangs, sem eru skuldaleiðréttingarnar á næstu fjórum árum?