143. löggjafarþing — 103. fundur,  6. maí 2014.

lekamálið í innanríkisráðuneytinu.

[13:59]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Er lekinn sem sagt annars staðar frá? Gagn sem búið er til í ráðuneytinu getur ekki lekið annars staðar frá en úr ráðuneytinu. Um það snýst málið, að trúnaðarupplýsingar fara úr ráðuneyti yfirmanns æðstu dóms- og löggæslumála, við erum að tala um það. Það er ekki léttvægt þegar eitthvað slíkt lekur út og borgarar geta átt á hættu að slíkt gerist aftur. Af hverju ekki? Hvað er það sem segir að slíkt geti ekki gerst aftur? Getur ráðherra svarað því?

Mér finnst sorglegt að ráðherrann haldi því fram að ekki hafi verið talað hér gegn betri vitund með því að segja að ekkert hafi verið til og ekki hafi verið lekið úr ráðuneytinu. Ég hvet þá sem láku að gefa sig fram og taka samstarfsfólk sitt þar með úr snörunni.

Ég tel að ráðherra hefði átt að sjá sóma sinn í því að fara í leyfi á meðan á rannsókninni stóð, þótt ekki sé nema vegna þess að hún er æðsti yfirmaður þessara mála.

Nú er það of seint og því má spyrja sig hvort nokkuð annað (Forseti hringir.) en afsögn komi til greina og hvort ríkisstjórnin og þingmenn stjórnarflokkanna treysti sér til þess að bera ábyrgð á ráðherra sem hefur farið fram á þennan hátt. Ráðherra situr í umboði þingsins (Forseti hringir.)og hann ber ábyrgð á eigin framgöngu og ráðuneytisins (Forseti hringir.) gagnvart þinginu. Ráðherra sem getur ekki upplýst þingið sjálft á fullnægjandi hátt um svo alvarlegt mál bregst skyldum sínum.