143. löggjafarþing — 103. fundur,  6. maí 2014.

upplýsingar um hælisleitanda.

[14:07]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Hæstv. ráðherra er ekki í lófa lagið að sýna neina auðmýkt. Það vill bara svo til að hæstv. ráðherra sagði þinginu ósatt um tiltekið minnisblað. Eftir að ég var með fyrirspurn um þetta mál skammaði hæstv. ráðherra mig fyrir það þegar ég gekk út úr þingsalnum og skammaðist út í þá þingmenn sem hafa leyft sér að fjalla um málið í þingsal. Ekki er nú hæstv. ráðherra samkvæmur sjálfum sér.

Mér finnst líka alveg ótrúlega ósmekklegt þegar hæstv. ráðherra tekur sig til, þegar við fjöllum um þetta mál, og beinir spjótum að Rauða krossinum ásamt fleirum um að þeir hafi hugsanlega mögulega gert minnisblaðið sem var gert í ráðuneytinu og hefur nú komið fram. Það hefur komið fram að minnisblaðið var gert í ráðuneytinu, það var sent á ráðherrann eftir klukkan fimm og fleiri háttsetta í ráðuneytinu sem starfa með ráðherranum. Síðan kom fréttin í blaðinu daginn eftir.

Mér finnst með ólíkindum að ráðherrann ætli virkilega að reyna að varpa núna ábyrgðinni yfir á einhverja aðra, t.d. mig, (Forseti hringir.) og segja að mér sé meira annt um leka en hæstv. ráðherra og (Forseti hringir.) sé umburðarlyndari gagnvart slíku. Það hefur bara ekki neitt með þetta mál að gera.