143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[16:53]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég held að sjálfsögðu að ef ætti að efna loforðið, og þó við ýtum til hliðar ágöllum þessa frumvarps, láti mjög nærri að lækkunin ætti að vera 2%, að hún tæki til rétt liðlega hálfs árs í staðinn fyrir heils. Ég teldi það hins vegar ekki góðan kost vegna þess að frumvarpið er svo meingallað. Ég hefði miklu frekar viljað sjá að ígildi þessara fjármuna yrði varið með málefnalegum og markvissum hætti til þess að lækka einhverja tiltekna kostnaðarliði sem kæmu mönnum þannig til góða að það munaði um það og menn sætu ekki uppi með svona brandara eins og að lækka raforkuskatt um 1/100 úr eyri.

Ég hefði talið að sterk rök stæðu fyrir þessu með heilsugæsluna. Ég fór yfir það meðal annars vegna þess að við erum að fá alvarlegar upplýsingar um hversu hátt hlutfall neitar sér um heilbrigðisþjónustu. Við sem trúum því að öflug heilsugæsla eigi að vera fyrsti viðkomustaðurinn í kerfinu þurfum að passa upp á það. En ég hefði til dæmis talið koma til greina að ef menn vilja eitthvað eiga við skattlagningu á umferð og eldsneytisgjöld að taka alla lækkunina út í olíugjaldi og þungaskatti. Það er meðal annars með þeim rökum að það er miklu viðkvæmari gjaldtaka hvað varðar flutningskostnað í landinu. Það hefur víðtækari afleidd áhrif og hefur mikil verðlagsáhrif, vegna þess að flutningurinn spilar inn í vöruverð annars staðar, mjög mikið.

Lækkun á endaverðinu á bensíninu á heimilisbílinn hefur í sjálfu sér minni slík áhrif ef út í það er farið, fyrir nú utan að það er enn verið að rekja það far í álagningunni hvort það skilar sér til neytenda. Fráleitt tel ég auðvitað vera að taka áfengis- og tóbaksgjald inn í þetta o.s.frv. Ég er alveg viss um að það taki ekki langan tíma í samskiptum við aðila vinnumarkaðarins að bera niður (Forseti hringir.) á þremur, fjórum stöðum þannig að menn nýttu 450–500 milljónir í skynsamlegar og marktækar lækkanir á þremur, (Forseti hringir.) fjórum, fimm kostnaðarliðum.