143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[17:02]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að eins mikið og menn tala nú um það á hátíðisdögum að forgangsraða þá er það nú aldeilis ekki gert í þessu máli. Það er alveg óvenjulega flatt eins og ég hef reynt að fara yfir í minni ræðu. Menn fóru bara með reiknistokkinn á býsna breiðan geira af kostnaðarliðum af þessu tagi og lækkuðu alls staðar um 1%. Það leiddi svo út í hallærislegar niðurstöður eins og lækkun um 1/100 úr eyri í staðinn fyrir að forgangsraða og bera niður þar sem af félagslegum eða öðrum ástæðum væri góð samstaða um að láta viðkomandi málaflokk eða aðila njóta þess að menn hefðu ákveðið að ráðstafa svigrúmi inn í þetta samhengi.

Ég er alveg viss um það til dæmis að það hefði verið auðvelt að fá aðila vinnumarkaðarins til að segja bara já takk við því að fella niður hækkunina á komugjöld á heilsugæslustöðvar, ég er alveg viss um það, miklu almennari aðgerð en að lækka tóbaksgjald, miklu almennari. Það leyfi ég mér að fullyrða, eða aðra slíka liði sem kæmi mjög mörgum til góða.

Varðandi hallalaus fjárlög man ég þetta nú svipað og hv. þingmaður, einhvers staðar endaði þetta í á milli 600 og 900 milljónum, mig minnir reyndar að talan hafi verið heldur hærri við lok 3. umr., þannig að afgangurinn er lítill ef við trúum á hann. Þarna færi út annaðhvort 270 eða 460 milljónir af þessum litla afgangi. Reyndar er það nú þannig að þetta er það sem við mundum kalla á fjárlagamáli langt innan skekkjumarka og þegar hafa aðrir hlutir gerst sem eru miklu líklegri til að keyra fjárlögin sem slík yfir í halla eins og kjarasamningar um fjölmenna hópa opinberra starfsmanna þar sem launahækkanir innan ársins eru talsvert umfram það sem gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga.

Annað kann að vera að leggjast með okkur eins og nokkuð sterkari tekjugrunnur undir ríkissjóðinn núna fyrstu mánuðina og gríðarleg arðgreiðsla frá Landsbankanum. Í sjálfu sér (Forseti hringir.) eru horfurnar því ekkert slæmar með að fjárlög verði réttum megin við strikið eins og þetta lítur út í augnablikinu.