143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[18:44]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get með engu móti skýrt hugsanagang þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Það er ekki þannig. Ég veit því ekki nákvæmlega hvað vakir fyrir hv. þm. Pétri H. Blöndal sem er framsögumaður nefndarinnar í þessu máli, eins og þingmaðurinn spurði um.

Ég vakti þó athygli á því í ræðu minni að frumvarpinu var dreift um miðjan febrúar, 13. febrúar. Mælt var fyrir því 18. mars, rúmum mánuði síðar. Þá þegar var liðin dagsetningin sem átti að vera gildistaka frumvarpsins. Þegar hæstv. fjármálaráðherra, flutningsmaður málsins og formaður annars stjórnarflokksins, kemst til að mæla fyrir málinu 18. mars er þegar útséð um að gildistakan geti orðið 1. mars og alveg ótrúlegt að hann skyldi þá ekki bara gera breytingu á frumvarpinu þegar hann komst til að mæla fyrir því. En þessi töf sem þarna verður er algerlega á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og sýnir að ríkisstjórninni var ekki sérstaklega umhugað um að þetta mál kæmist fljótt á dagskrá. Kannski var það þannig að ríkisstjórninni þyki bara þægilegt að útgjaldaaukinn sé þessu minni en hún í raun og veru gekkst við þegar yfirlýsingin var gefin.

Varðandi spurningu þingmannsins, um það hvað ég teldi að ætti frekar að gera, þá tel ég að það hefði verið miklu nær að allir þeir fjármunir sem áttu að fara í þessa aðgerð af hálfu ríkisstjórnarinnar, 460 millj. kr., hefðu farið inn í heilsugæsluna til að draga úr kostnaðarauka þar.