143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[19:11]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og yfirferðina, hann fer gjarnan yfir kosningaloforðin og það sem menn hafa lofað og sýnir fram á að ekki er verið að framkvæma í samræmi við þau loforð. Það er sérstaklega athyglisvert í samhengi við það að í raunveruleikanum lofar ríkisstjórnin í kjarasamningum gjaldskrárlækkun en ekki eru sett nein skilyrði fyrir hvað eigi að lækka. Hún velur svo þessi atriði þrátt fyrir yfirlýsingar um ýmislegt annað á öðrum stigum.

Það er líka sérstaklega athyglisvert vegna þess að sveitarfélögin voru komin á undan. Þau gripu strax inn þegar menn voru að tala um að reyna að gera kjarasamninga sem væru verðbólguhemjandi, þ.e. að reyna að lækka verðbólguna. Sveitarfélögin drógu úr gjaldskrárhækkunum eða féllu jafnvel frá þeim og Reykjavíkurborg varð fyrst til.

Hv. þingmaður nefnir réttilega að markmiðið hafi verið að fara í 460 millj. kr. lækkun á gjöldum. Síðan breytist þetta úr því að vera tíu mánuðir yfir í sjö mánuði þannig að mér sýnist í fljótu bragði að það verði ekki nema 322 millj. kr. sem þetta lækkar um, þ.e. það er lækkun um 132 millj. kr. Ég velti því fyrir mér hvort það verður ekki að teljast svik á kjarasamningum eins og hv. þingmaður raunar kom inn á að hluta.

Ef maður skoðar þennan forgang aðeins betur þá spyr ég hvað hv. þingmanni finnist um það þegar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hælir sér af því að hann hafi lækkað gjöld um 25 milljarða. Þá erum við að tala um auðlegðarskatt upp á 10 milljarða, við erum að tala um tekjuskatt á milli og hærri tekjum upp á 5 milljarða og við erum að tala um veiðileyfagjald upp á einhverja milljarða líka. Þar eru lækkanirnar á sköttum og það er fróðlegt að skoða það í samhengi við þær tölur sem hér koma fram.