143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[22:19]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi hið síðara atriði, ég svara því fyrst: Röksemdir mínar liggja á borði aðalfunda stærstu sjávarútvegsfyrirtækja í landinu og frétta sem okkur bárust þaðan um arðgreiðslur sem skipta milljörðum kr. ofan í vasa eigenda og fréttir af því að útgerðirnar skili meiri arði til eigenda sinna en dæmi eru um í Íslandssögunni. Það eru röksemdir mínar fyrir því.

Varðandi heilsugæslustöðvarnar ræð ég það af yfirlýsingum frá verkalýðshreyfingunni og vísa þar sérstaklega í yfirlýsingar frá Starfsgreinasambandi Íslands þar sem harmað var að komugjöld á heilsugæslustofnanir yrðu ekki lækkuð. Ég þekki það ekki í þaula hvað nákvæmlega átti sér stað í viðræðum milli aðila, en ég ræð það af þeim yfirlýsingum sem þessir aðilar gáfu að þarna telja menn að svik hafi verið á ferðinni; menn hafi talið að lækkun mundi koma þarna fram. Auðvitað á að standa við slík fyrirheit. Ef láta á þessar ríflega 200 millj. kr. renna á einn stað mundi ég alveg tvímælalaust vilja láta það renna til heilsugæslunnar.