143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum.

70. mál
[17:20]
Horfa

Brynhildur S. Björnsdóttir (Bf):

Herra forseti. Þetta er ánægjulegur dagur í dag. Við í Bjartri framtíð erum afskaplega glöð að þetta mál skuli hafa komist á dagskrá og mig langar til þess að þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir framsöguna.

Við erum bæði með nefndarálitið með tillögu til þingsályktunar um skráningu upplýsinga um umgengnisforeldra og svo erum við með tillögu Bjartar framtíðar um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum, sem kom fram á þingi 2013 og er ánægjulegt að hún sé komin hingað í síðari umr.

Það er gríðarlegt mannréttindamál að börn og foreldrar búi við jöfn réttindi á tveimur heimilum, af því að það er náttúrlega veruleikinn eins og hann blasir við okkur í dag. Það er réttur barna, eins og fram kemur í nefndarálitinu og hjá Sameinuðu þjóðunum líka, það er vísað til þess í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að þessi samskipti séu ein af grundvallarréttindum barna og okkur löggjafanum ber að vernda þau og stuðla að þeim.

Við erum mjög ánægð með að skipaður hafi verið starfshópur í kringum þetta og viljum hvetja hann til dáða. Við vonum að málið tefjist ekki en talað er um að starfshópurinn eigi að skila niðurstöðum fyrir árslok 2014. Við vonum að það verði úr af því að þetta er gríðarlega brýnt mál og hefur beðið.

Við viljum leggja áherslu á þetta mál og fögnum góðri vinnu í hv. velferðarnefnd. Það er eiginlega ekki meira um það að segja. Mér fannst framsögumaðurinn koma ansi vel inn á mikilvægi málsins og ég held að það varði mörg heimili í landinu og marga foreldra sem búa við ójafna skiptingu. Hún er ekki síður mikilvæg tillagan um að það verði haldin skrá, sögulegt yfirlit yfir umgengnisforeldra, af því að það hefur verið í lamasessi og það er í sjálfu sér þannig í dag að foreldrar sem eru ekki með lögheimili barna sinna en eru þó jafnvel með þau helming tímans eru ekki skráðir sem foreldrar. Það er algjörlega óásættanlegt þegar við viljum búa í velferðarríki þar sem ríkir jafnrétti, það verður að vera á báða bóga.

Við þökkum fyrir góða vinnu og fyrir að þetta mál hefur komist á dagskrá og við hlökkum til að sjá niðurstöðu starfshópsins.